25.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1383 í B-deild Alþingistíðinda. (1727)

92. mál, brúargerð á Jökulsá

Stefán Stefánsson:

Eg vona að mönnum komi ekki á óvart tillaga okkar þingmanna Eyf. um að skjóta Eyjafjarðará inn í frumv. Þetta hefir lengi verið áhugamál héraðsbúa, eins og sjá má á þingmálafundargerðum, sem legið hafa frammi í lestrarsalnum. Við höfðum hugsað okkur að koma fram með sérstakt frumvarp um þetta, en úr því að þetta frumv, er fram komið, þótti okkur rétt að láta alt vera sama frumvarpið.

Eins og mönum er kunnugt er áin á aðalpóstleið. Verkfræðingurinn hefir gert áætlun um brú þó á tvennan hátt, eftir því hver staður valinn er. Annar staðurinn er hjá Hólmavöðum og mundi brúin þar kosta um 75 þús. kr. eftir áætlun verkfræðingsins, hinn staðurinn hjá Gilsferju og mundi brú þar kosta um 50 þús. kr. Nú er það athugandi, að ef brúin væri á Gilsferju yrði það krókur á aðra mílu og því mjög óheppilegt brúarstæði að því leyti. En Hólmavöð eru í leiðinni og yrði því brú þar að meiri notum bæði héraðsbúum og Akureyringum. Þess vegna er mér víst óhætt að fullyrða, að allur almenningur óskar þess, að brúin verði sett á ána, sem allra næst alfaraleið, sem liggur um Eyjafjarðarárhólma, og til samvinnu um það mál hygg eg þá mjög fúsa bæði þingmenn Þingeyinga og Akureyrarkaupstaðar, enda enginn vafi, að brúin kemur þar að mestum almennum notum, og kostnaðarmunurinn als ekki tilfinnanlegur.

Eg skal ekki fara langt út í þetta mál. Eg get skírskotað til ræðu hins háttv. þm. Mýr. (J. S.) um það, að ekki verður lagt út í þessar brúagerðir, fyr en fært sýnist fjárhagsins vegna. En þegar lagt verður út í þær, þá á þessi á að vera framarlega í röðinni og það er að eins það eitt, sem við flutningsmenn málsins vildum tryggja.

Eg hefi ekki við hendina uppdrætti landsverkfræðingsins á, brúarstæðunum og vegagerð að þeim, en vona að geta sýnt þá síðar á fundinum og geta menn þá kynt sér þá. Um þetta mál sé eg svo ekki að hafi þýðingu að fjölyrða en vona að menn samþykki tillöguna.