25.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1384 í B-deild Alþingistíðinda. (1728)

92. mál, brúargerð á Jökulsá

Framsögumaður (Jón Ólafsson); Herra forseti! Það er orðið allkvikt utan um þetta frumv. Ekki færri en 4 breyttill. vaxnar við það. Frumv. er um að brúa Jökulsá á Sólheimasandi. Enginn véfengir, að þessarar brúar sé hin mesta nauðsyn. Verkfræðingurinn hefir gert áætlun um kostnaðinn og er ekkert við það að athuga. En nú er farið fram á að hnýta þessum 4 brtill. aftan við, og eru þær þó í rauninni sérstök frumvörp. Þótt eg þekki ekki allar þessar ár, er víst enginn vafi á, að á engri þeirra er eins mikil þörf brúar og á Jökulsá á Sólheimasandi. Sumar þessar ár eru ferjuvötn, sem ætíð má komast yfir. Það er rangt að koma með þessar breyt.till. þannig. Ef háttv. flutningsmönnum er alvara, ættu þeir að fá frumvarpið tekið út af dagskrá og koma með nýtt frumvarp um brúagerðir á Íslandi. 1. gr. yrði svo:

»Brúa skal hverja sprænu á landinu«. 2. gr. þessa frumv. héldist óbreytt. Þannig mundi frumv. líta út, ef afleiðingarnar yrðu teknar af þessum breyt.till.

Eg hygg, að ef hinum háttv. þm. hefði verið alvara, mundu þeir hafa komið með sérstakt frumvarp um hverja þessa á, en þessi aðferð þykir mér grunsamleg og virðist svo sem með því eigi að hengja mylnustein um háls frv. Því mun eg greiða atkvæði gegn öllum breyt.till.