25.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1386 í B-deild Alþingistíðinda. (1730)

92. mál, brúargerð á Jökulsá

Jón Jónsson (1. þm. S.-Múl.):

Mér þykir ástæða til að skýra frá því, að ef þessar viðaukatill. ná fram að ganga, tel eg mér skylt að koma með viðaukatill. við 3. umr. um fjárveiting til brúargerðar á Hamarsá.

Annars álít eg þýðingarlítið að gera svona lög, og brýrnar koma ekki fyr, þrátt fyrir það þótt tillögurnar verði samþyktar. Það er auðvitað sjálfsagt að halda áfram þeirri stefnu að brúa helztu ár landsins eftir því sem stjórnin sér landssjóði fært. En skaðlaust held eg það sé, þótt allar þessar tillögur féllu nú. Stjórnin og verkfræðingur landsins munu hafa vakandi auga á samgöngumálum landsins svo sem hingað til.