25.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1387 í B-deild Alþingistíðinda. (1731)

92. mál, brúargerð á Jökulsá

Sigurður Sigurðsson:

Þegar eg lít á frv. og breytingar- eða viðaukatill. við það, þá dylst mér ekki, að hér er um mikið nauðsynjamál að ræða, þar sem aðalmálið er brúargerð á Jökulsá á Sólheimasandi. Hún er nú áætluð 74,000—75,000 kr., en ef allar brtill. næðu fram að ganga, þá mundi það nema 252 þús. kr. alls, sem þar með væri lagt á herðar landssjóði að verja til brúagerða. En eg geri ráð fyrir, að við höfum naumast tök á að brúa allar þessar ár á næstu árum. Eg vona að þessar ár verði nú brúaðar svona smátt og smátt, eftir því sem fjárhagurinn leyfir. En eins og nú er ástatt álít ég þýðingarlítið að samþykkja þessar brtill., eins og þær liggja fyrir, og jafnvel líka frv. sjálft, ekki af því að eg álíti ónauðsynlegt, að þessi vatnsföll séu brúuð, heldur af því að það mun að sjálfsögðu verða tekið til athugunar og gert þegar kringumstæðurnar leyfa, og fyrir því er þýðingarlaust að vera nú að samþykkja lög um þetta. En af því að eg vil hlynna að því, að þetta mál verði sem fyrst rækilega athugað af þingi og stjórn, þá hefi eg leyft mér að koma fram með rökstudda dagskrá, er hljóðar svo:

»Í því trausti, að landsstjórnin taki þessi og fleiri brúamál til athugunar og áætli fé til að gera brýr á komandi fjárhagstímabilum, eftir því sem fjárhagsástæður landsins leyfa, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá«.