27.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1391 í B-deild Alþingistíðinda. (1733)

92. mál, brúargerð á Jökulsá

Jón Þorkelsson:

Af því að eg er einn af þeim, sem áttu sæti í þessari nefnd, vildi eg segja nokkur orð. Það er ekki nýtt, þegar einhver biður um eitthvað þessu líkt, að þá losni hreppapólitíkin og festi ótal hala aftan í mál það, er fyrir liggur. Hér eru nú halarnir orðnir hvorki fleiri né færri en fjórir (4), og kosta mikið á annað hundrað þúsund krónur.

Eg er nú ekki kunnugur öllum þeim ám, sem hér er um að ræða, en þær af þeim, sem eg þekki, eru varla annað en meinlausir lækir í samanburði við Jökulsá á Sólheimasandi. Eyjafjarðará er tiltölulega meinlaust vatnsfall og Hofsá í Vopnafirði er ekki nema á sýslu- eða hreppavegi. Þá er Hvítá. Á henni eru nú brýr og mér er tjáð, að hér sé ekki nema um sýsluveg að ræða. Þar að auki má geta þess, að hún er skipgeng langar leiðir upp eftir, svo að samgöngurnar eru þar ekki svo bágar. Fjórða brtill. fer fram á 50,000 kr. til þess að brúa Héraðsvötn. Eg skal nú geta þess, að þar hefir í mörg ár verið dragferja, sem landssjóður hefir styrkt, en kannast skal eg við það, að næst á eftir Jökulsá á Sólheimasandi ætti fyrst að brúa það vatnsfall. Það rennur í miðju fjölbygðu héraði og hefir það komið til orða áður hér í þinginu að nauðsyn væri á brú þar.

Það er engin nýjung, að heimila með lögum væntanlegar fjárveitingar til þess að brúa vond vötn, svo að menn þurfa ekki að verða neitt hvumsa, þótt slíkt komi hér fram. Þannig var það fyrir löngu síðan með Jökulsá í Öxarfirði, og leið þá ekki á löngu, þar til hún var brúuð, enda lagði hlutaðeigandi þm. alt kapp á það mál þá, og skal það sagt honum til sóma. Munar þó býsna miklu á þeim ám, ef saman er borið, þar sem Jökulsá í Öxarfirði rennur um öræfi og fáment hérað, en Jökulsá á Sólheimasandi um fjölment hérað, sem jafnvel eru líkur til að verði enn fjölmennara síðar. Og svo er það réttilega tekið fram í nefndarálitinu að þetta áarforað er í miðju læknishéraði, og situr læknirinn einmitt þeim meginn, sem fámennara er. Þess utan er það merkjanda, hve margir eiga kaupstaðarleið yfir á þessa og það úr fjölbygðum héruðum

Út af áfergju þeirri, sem hljóp í ýmsa háttv. þm., þegar þeir sáu, að það átti að ljá máls á þessu, eru nú komnar fram ýmsar tillögur. Einn vill, að málið sé tekið út af dagskrá, en annar vill eyða því með rökstuddri dagskrá. Eg álít, að hvorttveggja hafi sömu þýðingu og hvorugt sé sæmandi, því það að vísa málinu til nefndarinnar aftur, er sama sem að svæfa það. Ef nú á að fara að bollaleggja um það, hvenær og hvernig eigi að brúa öll vötn á þessu landi í framtíðinni, þá verður það ekki til neins annars, en að tefja fyrir framgangi þessa máls, og mæli eg því móti báðum þessum tillögum.

Önnur á, sem er á næstu grösum við þessa, er nú komin á fjárlögin og hefir verið mikið karpað um brúargerð á henni undanfarið. Það er Rangá ytri. Þar er að vísu umferð mikil, en sá er munurinn, að Rangá er alveg meinlaust vatnsfall í samanburði við Fúlalæk. Hefði því átt að brúa þá ána, sem nauðsynlegast var, þá hefði Jökulsá án efa átt að ganga fyrir.

Mér heyrðist einhver taka það fram áðan, eg held háttv. 2. þm. Árn. (S. S.) að þetta mál væri lítt undirbúið. Eg er nú ekki verkfróður, en hitt veit eg, að fyrir nefndinni lá uppdráttur og álit frá landsverkfræðingnum um það, hvar brúin ætti að vera og hvað hún mundi kosta. Eg verð að leggja hina mestu áherzlu á það, að þetta mál nái fram að ganga, því að mín skoðun er sú, að það sé ranglátt, að nokkur önnur brúargerð á þessu landi sé látin ganga fyrir þessari. Mönnum mætti vera það minnisstætt, að nýlega birtist skýrsla um það frá þeim, sem gagnkunnugir eru, hvern skaða þessi á hefir gert í tíð þeirra manna, sem lengst muna. Hygg eg, að varla geti annað eins manndrápsvatn á þessu landi og vil eg skjóta því til deildarinnar, hve lengi það á að þolast, að hafa á þessa brúarlausa. Eg vildi nærri því óska, að þeir þm., sem eru þessu mótfallnir, ættu leið yfir þessa á, þegar hún er í vandséðara lagi, en þó talin fær, og farin af kunnugum. Það mundi sannfæra þá í þessu máli.