25.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1394 í B-deild Alþingistíðinda. (1735)

92. mál, brúargerð á Jökulsá

Eggert Pálsson:

Þetta frumv. er ekki sérlega langt, en efnið í því er talsvert mikið, þar sem veltur á tugum þús. útgjaldaauka fyrir landssjóðinn til einnar brúar. Og þegar það kemur hér til alvarlegrar umræðu, þá er ekki nema von, að eitthvað svipað komi fram og þessar viðaukatillögur, sem hér liggja fyrir. Það er ekkert undarlegt, þótt hver og einn þm. vilji þá sínum tota fram ota, og finni til þarfa kjördæmis síns, því hver er jafnan sjálfum sér næstur. En þegar svo er komið, ríður á því að gera sér það ljóst, hverjar afleiðingarnar yrðu, ef allar þessar viðaukatillögur, sem hér liggja nú fyrir, yrðu samþ. og svo svo margar, sem koma mundu fram við 3. umr. og ættu sama rétt á sér. Mér virðist að slíkt hlyti að horfa til stærstu vandræða. Eg álít nú, að hver sem vill líta sanngjarnlega og samvizkusamlega á þetta mál, hljóti að játa, að Jökulsá á Sólheimasandi sé sú áin, sem mest nauðsyn er á að brúuð verði, þar sem hún er, eins og tekið hefir verið fram, mesta manndrápsvatn á þessu landi. Og því brýnni hljóta allir að viðurkenna þörfina á þessari brú, sem Jökulsá skiftir læknishéraði sundur, og meiri hluti íbúa héraðs þessa er meira að segja búsettur þar, sem læknirinn býr ekki. Hefði héraði þessu verið skift í sundur í tvö læknishéruð, eins og farið hefir verið fram á, hefði þörfin fyrir þessa brú minkað til muna og að miklu leyti horfið. En eins og ástatt er, hljóta allir að sjá, hve þessi brú er afar nauðsynleg. En þótt þörfin á þessari brú sé afar brýn, þá vil eg þó ekki kannast við, að meiri þörf sé á henni en brú á Ytri-Rangá, því þótt Jökulsá sé verra vatnsfall í sjálfu sér, og hættumeira að fara yfir hana, þá er umferð miklu meiri yfir Rangá, og enginn samanburður á því sem yfir þær hvora um sig þarf að flytja. Að brú á Jökulsá ekki hefir fyr komið til tals, stafar af því, að menn héldu að ómögulegt væri að brúa hana, og það er fyrst nú á allra síðustu tímum, að menn hafa komist að raun um, að það mundi hægt. Og þegar svo er komið, hljóta menn að játa, að þetta mannskæða vatnsfall hefir forgangsrétt, að því er brú snertir, fyrir flestum öðrum vatnsföllum. Og þó að háttv. alþingi sjái sér ekki fært að veita fé til þessara brúa nú, þá hljóta allir að viðurkenna, að það er sjálfsagt að það verði gert í náinni framtíð. Hér er nú framkomin tillaga um að afgreiða málið með rökstuddri dagskrá. Það er sýnilegt, að það flýtir eigi á neinn hátt fyrir málinu. Og virðist mér þá, að eins vel mætti fella málið alveg, eins og samþykkja hina rökstuddu dagskrá. En eg vona, að hvorugt verði gert. Eg vona að frumv. sjálft verði samþykt, en viðaukatillögur allar verði skornar niður við eitt og sama trogið.