18.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1491 í B-deild Alþingistíðinda. (1888)

120. mál, farmgjald

Framsögum. meiri hl. (Benedikt Sveinsson):

Eins og mönnum er kunnugt, var mál þetta fyrir síðasta þingi í nokkuð öðru gerfi, en það hefir nú. Frumvarpið hefir verið tekið upp til þess að jafna tekjuhallann, sem fyrirsjáanlegt er, að nú muni verða á fjárlögunum, með því að stjórnin hafði látið undir höfuð leggjast að gera tilraun til að sjá landssjóði fyrir tekjum í stað áfengistollsins.

Síðan mál þetta kom fram á síðasta þingi, hefir þjóðinni gefist kostur á að athuga það nokkuð á þingmálafundum. Einnig hefir verið ritað um það í blöðunum. Margir þingmálafundir hafa lagt málinu liðsyrði.

Eg skal geta þess, að á þingmálafundi í Árnessýslu, sem hafði mál þetta til meðferðar, var kosin nefnd til þess að íhuga skattamál og tollmál landsins. Nefnd þessi lét upp álit sitt, er hún hafði haft mál þessi til meðferðar í tvo eða þrjá mánuði og kvaðst hún álíta farmgjaldsleiðina hentuga til þess að afla landssjóði tekna. En það fann hún slíkum tollstofni helzt til foráttu, að þar með væri þingi og stjórn opnaður ofgreiður vegur til þess að auka tekjur landsins, — hækka farmgjöldin, þegar svo sýndist og mundi þetta leiða til ofmikillar fjáreyðslu og bruðlunar. —

Af þessu sést, að þessir menn telja farmgjöldin handhægust allra álagna til þess að afla landssjóði tekna.

Farmgjaldsfrumvarpinu var fundið það til foráttu á síðasta þingi, að það legði jafnan toll á allar vörur, sem til landsins flyttust, hvort sem þær væru dýrar eða ódýrar, þarfar eða óþarfar. Einkum var það viðkvæðið, að nú ætti að leggja toll á kornvöru, en því mun almenningur víðast vera mótfallinn.

Nú hefir verið reynt að komast hjá helztu annmörkunum, sem þá þóttu á frumvarpinu. Kornvara er nú öll undanskilin farmgjaldi og sú aðferð tekin upp að flokka niður allar vörur, sem til landsins flytjast. Eftir frumv. er öllum farmgjaldsskyldum vörum skift í 7 flokka.

Eins og kunnugt er, þá hefir nefndin sem hefir haft mál þetta til meðferðar hér í þinginu, ekki orðið sammála. Þótt meiri hlutinn sé ekki fyllilega ánægður með flokkunina, þá leggur hann þó til, að málið verði samþykt á þessu þingi. Misbrestir þeir, sem kunna að vera á frumv., munu bezt koma í ljós við reynsluna og þá fyrst er hægt að bæta úr þeim, þegar hún er fengin.

Skattamálum og tollmálum landsins er ekki ráðið til lykta enn, og þessvegna þykir meiri hluta nefndarinnar nauðsynlegt að sjá, hvernig þessi aðferð, sem hér er farið fram á, muni gefast, svo að menn fái þó nokkra reynslu fyrir sér í þessu efni sem fyrst, áður en til fulls verður gengið frá þessum vandamálum.

Minni hlutinn hefir í sínu áliti drepið á þá aðferð, að landið einokaði sölu einstakra vörutegunda. Þetta var ekki all-lítið rætt í nefndinni og leizt flestum nefndarmönnum vænlega á það ráð. En því verður ekki við komið á þessu þingi héðan af, til þess að bæta fjárhaginn í svip, heldur er til ætlast, að skorað verði á stjórnina að búa það mál undir næsta þing. Þarfir landssjóðs eru einnig svo miklar, og fara sívaxandi, að ekki mundi af veita, þótt fundin væri fleiri en ein ný tekjugrein honum til handa. Tillagan um þjóðverzlun (einokun, sem þjóðin leggur á sérstakar vörur), hnekkir því alls ekki farmgjaldsfrumvarpinu á neinn hátt, né dregur úr nauðsyn þess.

Hingað til hefir sú aðferð verið höfð, að tolla fáar vörutegundir, en hafa tollinn háan. En nú er tollurinn orðinn svo hár á flestum þeirra, að tæplega mun gerandi að hækka hann úr þessu. Í jafn viðáttumiklu landi, sem Ísland er, verður tolleftirlit mjög torvelt. Og ef tollurinn yrði hækkaður úr því, sem nú er, á þessum fáu tollskyldu vörum, þá mundi freistingin hjá kaupmönnum og öðrum fara vaxandi að því skapi til þess að svíkja tollinn. Og þetta er gert nú, vafalaust miklu meira en flesta grunar. Eitt dæmi hefir komist upp hér í miðjum Reykjavíkurbæ, þegar »álnavöru«-kassinn hans Brauns kaupmanns brotnaði hérna á bryggjunni og alt »sirsið« og »boldangið« var orðið að dýrindis Hamborgar vindlum.

Og það er síður en svo, að þetta sé einsdæmi um tollsvikin hér. Það mundi því ekki ná tilgangi sínum, þótt þingið legði hærri toll á einstakar vörutegundir. Hér er ekki hægt að koma á nákvæmri tollgæzlu, fyr en landið er orðið ríkt og þéttbýlt,

Farmgjöldin hafa aftur meðal annars þann mikla kost, að gjaldið er svo lágt og svo jafnt á vörutegundunum tiltölulega, að varla getur borgað sig, að fara að brjóta lögin og setja eina vöru í umbúðir annarar. Mismunurinn á gjaldinu er oflítill til þess, að slíkt verði gert svo að nokkru nemi.

Andstæðingar frumvarpsins hafa það á móti því, að flokkaskiftingin sé af handahófi. Vera má að svo sé, en eg vil minna á það, að öll frumsmíð stendur til bóta. Og þegar þetta fyrirkomulag hefir verið reynt, þá koma brestirnir í ljós og þá má lagfæra það, sem aflaga hefir farið.

Það er ætlast til, að farmgjaldið sé heimtað eftir farmskrá, sem skipið er skyldugt að hafa meðferðis. Nefndin hefir fengið upplýsingar um það hjá hv. flutnm. frumv., 1. þm.

G.-K. (B. Kr.), að flokkunin eftir farmskránni sé mjög fljótleg og muni ekki taka lengri tíma en eina klukkustund, þótt farmskrá sé í lengsta lagi. Og eins og menn vita, er háttv. flutnm. þessu mjög kunnugur, því að bæði hefir hann fengist við verzlun í mörg ár áður og jafnframt rannsakað þetta efni mjög ítarlega.

Eg veit vel, að frumv. muni mæta megnri mótspyrnu og verða fundið margt til foráttu. En eg hygg, að andmælin verði ekki svo veigamikil, að málið þurfi að falla fyrir þá sök. Það mun og vera svo um flestar nýjungar í tollmálum, að hægra þykir að finna á þeim galla og sýna fram á þá, heldur en að tína kostina. Það er hægra að rífa niður en byggja upp. Flestir munu minnast þess, að kaffi- og sykurtollurinn hefir ekki komist á hljóðalaust, en þó er hann sú tekjugrein landssjóðs, sem vissust er, og veitt hefir mestar og beztar tekjurnar.

Nefndin hefir ekki haft mikinn tíma til þess að athuga frumvarpið, og brtill. hennar á þgskj. 618 eru einkum leiðréttingar og lagfæringar. Hún hefir strykað út nokkrar tegundir, sem tollskyldar verða samkvæmt öðrum lagafrumvörpum, sem þingið hefir með höndum og því eiga undan að fellast. Svo er t. d. um ávaxtavín og gosdrykki, en þeir voru ekki tollskyldir, þegar þetta frumvarp kom fram. Aftur er bætt við vörutegundum, sem gleymst höfðu þegar frumv. var samið, og má vel vera, að enn séu einhverjar vörutegundir ótaldar, en þær koma þá í 7. flokki.

Þá hefir nefndin lagt það til, að það sem nefnt er í frumv. »8. flokkur« verði 2. gr. frumv., og breytist þá greinatala frumv. eftir því.

Nefndin hefir talið rétt, að þær vörur, sem ætlaðar eru til húsagerðar, séu gjaldfríar. Einnig felst hún á, að ekki skuli greiða farmgjald af steinolíu eða kornvöru. Skattur á steinolíu mundi koma þyngst niður á sjómannastéttinni, og steinolían er fulldýr nú, þótt ekki sé lagður tollur á hana.

Eg sé svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um málið að sinni, en vænti, að því reiði vel af.

Eg skal geta þess, að nefndin hefir fengið miklar og góðar upplýsingar hjá 1. þm.

G.-K. (B. Kr.), þar sem hana hefir brostið nægilega þekkingu á málinu, en hann er máli þessu gerkunnur frá rótum og mun einnig skýra ýms atriði þess fyrir deildinni.