18.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1501 í B-deild Alþingistíðinda. (1890)

120. mál, farmgjald

Björn Kristjánsson:

Eg finn ástæðu til að taka til máls út af ræðu háttv. 1. þm. Eyf. (H. H.) Eg er þakklátur hinum háttv. andmæling mínum fyrir það, hve hógværlega hann talaði um frumvarpið. Ætla eg svo að víkja að aðalatriðunum.

Í fyrsta lagi vakti hann máls á því, að heppilegt væri að finna tekjuauka án þess að fara í vasa gjaldendanna. Það væri gott ef það heppnaðist, en það er ný leið, sem mér vitanlega aldrei hefir verið leitað að áður hér á landi. Þegar tekjur vantaði þá hafa menn lagt á nýja tolla, og svo er það víðast haft. Að afla sér tekna með því að reka einokunarverzlun og fá þannig tekjuauka, getur verið góð leið, en það tekur langan tíma, en Íslendingar hafa enga reynslu í því efni, og óvíst hvernig tækist að reka slíka verzlun, án þess að íþyngja kaupendunum. Það tekur afarlangan tíma, að afla sér þeirrar reynslu og þekkingar, og tekjur af slíkri einokun er ekki hægt að bera fyrir sig í bráð. Og þar sem alla þekkingu vantar í þessu efni, getur sú hugmynd eigi verið nema framtíðarspursmál.

Háttv. andmælandi (H. H.) sagði, að hægt væri að fara í vasa almennings, ef menn eru nógu óhlífnir, en þess verður að gæta, að hér er ekki verið að fara í vasa fólks fyrir sjálfan sig, heldur fyrir þjóðina sjálfa. Í þessu landi verða tollarnir að koma misjafnt niður. Í öðrum löndum, þar sem fólksfjöldi er nógu mikill, hafa menn tollgæzlu, og þar er reynt að láta tollana koma sem réttlátast niður. Við erum aftur á móti þjóð, sem ekki getum sett á stofn tollgæzlu, höfum ekki ráð á því.

Háttv. ræðumaður sagði að hér væri skift um »princip«, að tolla vörur alment með lágum tolli í staðinn fyrir að tolla fáar vörur hátt.

Hann sagði og að þeir »liberölu« á Englandi hefðu farið fram á, að sem flestar vörur væru tollaðar, en það hafi strandað á mótstöðu auðmannanna, því það kæmi í bága við þeirra hag. Það er einnig rétt, að svona er það á Englandi, en það sannar ekkert um að það fyrirkomulag henti oss. Þar sem ekkert tolleftirlit er eins og hér, þar er enska fyrirkomulagið einmitt óhafandi, því eftir því sem hvílir hærri tollur á einni vörutegund, eftir því er freistingin meiri til að draga undan toll, og það mun nú líka óspart gert.

Á landi eins og Þýzkalandi eru flestar vörur tollaðar, t. d. er 3 markatollur á rúgtunnunni. (Jón Ólafsson: Þetta er verndartollur). Það getur vel verið, en hér þarf ekki að óttast það. Háttv. ræðumaður sagði, að þetta væri ómögulegt nema með tollþjónum. Hversvegna þarf þá ekki tollþjóna nú? Er hægara fyrir tollheimtumann að ná í toll af t. d. brendu kaffl eða sukkulade og brjóstsykri, sem lukt er niður í kassa, heldur en ef tollurinn lægi á kassanum öllum með umbúðum? Ekki þarf nema heilbrigða skynsemi til að sjá, að örðugra er fyrir kaupmann að komast hjá að greiða toll, ef hann á að greiða hann af öllum stykkjunum, sem hann fær samkvæmt farmskrá, eins og þau koma fyrir. Það þarf meira en litla fífldirfsku til að halda öðru eins fram og leikaraskap að leika heimskingjann og látast ekki skilja.

Eg tók eina hinu lengstu farmskrá frá árinu 1909, hún var 28 síður. Fyrst merkti eg kross við þær vörur, sem ekki eru tollskyldar, þar næst skipaði eg þeim í 7 flokka. Var eg að því einn klukkutíma. Eftir því mun mega lúka því starfi og að skrifa reikningana á einum degi, þannig 1 dagsverk. Sýnishorn af slíkum reikningi er hér til sýnis, sem er þannig gerður með hlaupandi númerum á farmskránni, að viðkomandi kaupmanni og endurskoðuninni er innan handar á stuttum tíma að sjá, hvort reikningurinn er réttur.

Auðvitað er þetta meira starf en áður, enda hefi eg ekki á móti því að prósentur séu færðar upp. Þetta yrði og mjög auðvelt aðgöngu fyrir endurskoðendurna og hægt að endurskoða þessa reikninga. Yfir höfuð verður þetta gjald ekki eins óréttlátt og kaffi- og sykurtollurinn, sem er afar ranglátur tollur, eins hár og hann er orðinn.

Eg get ekki kannast við, að gjaldið komi sérstaklega hart niður á vörum, sem fátæklingar aðallega kaupa, því að öllum er í sjálfsvald sett, hvort þeir kaupa t. d. járnvöru eða vefnaðarvöru. Hinn hv. þm. sagði, að því fleiri sem börnin væru, því meira þyrftu fátæklingar að borga, en hjá því verður ekki komizt og vitanlega á sú mótbára fult eins vel við kaffi- og sykurtollinn, sem nú er. Gjaldið leggst á sárfáar vörur, sem með réttu má nefna nauðsynjavörur.

Hinn háttv. þm. sagðist ekki vilja benda á einstaka galla á frv. af því að hann væri á móti stefnu þess yfir höfuð; mér þykir það illa farið, því að mér leikur einmitt hugur á að fræðast um, hverja agnúa hinir háttv. mótstöðumenn frumv. sjá á einstökum ákvæðum þess.

Ekki get eg skilið, að frumv. mundi á neinn hátt tefja fyrir skipaferðum, þótt það yrði að lögum. Eg hefi áður bent á, að innheimtan mundi verða auðveld, og vil eg gera ráð fyrir, að hún yrði borguð sæmilega, eins vel með 4% eins og 3%, ef farið væri fram á það.

Hinn háttv. 1. þm. Eyf. (H. H.) gat þess, að vöruskrá gæti vantað, og að þá væri ómögulegt að innheimta gjaldið. En hvernig fer nú, ef þetta kemur fyrir? Það er rétt athugað, að farmskrá getur komið frá fleiru en einu landi. En er ekki ástæða til að skoða farmskrá skips sem eina, þó fermt sé í fleiri löndum? Farmskráin getur þó ekki talist heil, nema hún nái yfir allan farminn. Meiningin er, að aðalskráin komi frá hverju landi, þar sem skipið kemur við.

Eg held að eg þurfi ekki að svara fleiri mótbárum, og vil eg nú vona, að hin háttv. deild taki málinu vel, því að það er nú eflaust betur undirbúið en það var á síðasta þingi, úr því mótmæli og aðfinslur heimastjórnarmanna hafa verið teknar til greina.