18.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1517 í B-deild Alþingistíðinda. (1894)

120. mál, farmgjald

Jón Ólafsson:

Herra forseti! Háttv. 1. þm. G.-K. (B. Kr.) talaði um orsökina til þess, að þetta frv. kom fram, og var hún þá sú, að þetta væri nauðsynlegt, vegna þess að engin tollgæzla væri til hér í landi. Sagði að núgildandi tolllög væru brotin og svikin, og því væri þetta ráð tekið. (Björn Kristjánsson: Eg talaði líka um tekjunauðsynina). Nú, það get eg betur skilið. En þá er spurningin sú, hvort ekki væri betra að bæta úr henni á annan hátt, og það hefir verið bent á marga betri og sanngjarnari vegi en þennan.

Hann játaði, að þetta frv. gæti leitt til verndartolla á innlendum iðnaði með tímanum, en þótti ekki svo skaðlegt, þótt svo færi. Þar skilur okkur nú einmitt á, því að þá leið álít eg eitt hið stórháskalegasta í löggjöf nokkurrar þjóðar. Alstaðar þar sem tollverndun hefir komist á, hefir hún orðið til þess að auka innlenda siðspillingu, frekar en iðnaðinn, og kenna þinginu að verzla við kaupmenn með löggjöfina, sem ekki ætti þó að vera verzlunarvara. Háttv. þm. sagði, að við gætum búið til allar tollskyldar vörur hér heima hjá okkur, nema kaffi, og gaf með því í skyn, að eiginlega væri skaðlaus, ef ekki þarflegur, verndartollur á öllu hinu; en þar get eg ekki verið honum samdóma. Það er vel mögulegt, að búa hér til sykur, en ætli það mundi borga sig? Eg verð að ætla að svo sé ekki, meðal annars af því, að farmgjaldið — sem hjá mér þýðir ekki annað en það sem borgað er fyrir að flytja vöruna (þ. e. sykurefnið) hingað — mundi verða of hátt til þess.

Eg skal játa það, að fyrirkomulagið, sem við eigum nú við að búa, er ekki nema til bráðabirgða, og að við þurfum bráðlega að fá annað í staðinn. En ekki hygg eg það svo bráðnauðsynlegt að breyta tolllögunum fyrir þetta næsta fjárhagstímabil, þótt einhverjir kunni að fara í kring um þau. Enda undantekur nú þetta frv. allar þær vörutegundir, sem nú eru tollaðar, svo að ekki bætir það úr svikunum, og hverfur því sú ástæðan. Eg spurði þm. áðan, á hverjum grundvelli hann hefði bygt flokkunina, en þegar hann sagðist ætla að fara að tala um þetta, þá fór hann að telja upp eftir hverju hann hefði ekki getað farið. Hann gat ekki farið eftir fyrirferð og ekki eftir verðmæti, og yfirleitt var alt neikvætt, sem hann sagði um þetta, en hinu er ósvarað enn, á hverju hann hafi bygt.

Hann talaði um það, að það er sjálfsagt rétt, að erfitt sé að flokka vörur af sömu tegund, eins og t. d. ýmis konar pappír, eftir verði. Það ætti þó síður að þurfa tolleftirlit til þess t. d. að þekkja umbúðapappír frá skrifpappír, en til þess að vita hvort heldur er í stórum kössum úr og silki eða gips og glerilát. Eg hefi áður tekið þetta og þvílíkt fram til þess að sýna, að hér er ekki farið eftir verðmætinu. Við vitum allir, hver munur er á dýrindis postulíni og bollapörum, sem við getum keypt okkur á 18 eða jafnvel 15 aura í búðunum.

Hann mintist á, að auðvelt væri að vita, hvaða tegundir fluttar væru, af því að Englendingar og fleiri þjóðir vissu upp á hár, hvað þeir flyttu út. En eg veit upp á hár, að svo er ekki, og eg veit um fleiri en sjálfan mig, sem hafa fengið í sama kassa glingurvörur og brjóstsykur o. s. frv. Það er auðvelt að hafa í sömu umbúðum tollaðar vörur og ótollaðar, og það er einmitt orsökin til tollsvikanna nú. Eg skal leika mér að, hvenær sem er, að fá sendar í einum kassa frá Englandi alls konar vörur, ætt og óætt, tollskylt og tollfrítt, þannig, að ekkert sé nefnt á hleðsluskírteininu (Connossement) annað en »Stationery«, þ. e. pappírssala-varningur.