21.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1527 í B-deild Alþingistíðinda. (1899)

120. mál, farmgjald

Framsögurm. meiri hl. (Benedikt Sveinsson):

Mál þetta var svo þrautrætt síðast, er það var á dagskrá hér í deildinni, að engin ástæða er til að halda langar ræður um það nú. Það er að eins breyt.till. á þgskj. 687 frá 2. þm. Árn. (S. S.) sem nokkur ástæða er til að tala um. Hún miðar að því að gera frumv. einfaldara, en þó verður gjaldið með þrennu móti samkvæmt henni. Eg hefi fyrst nú á fundinum fengið þessa breyt.till. í hendur, svo að eg hefi ekki haft nægan tíma til þess að átta mig á henni, en svo mikið get eg sagt, að hún fer í bág við frv., eins og það liggur fyrir og vill gera það líkara því, sem það var í hitt eð fyrra, en þá var það einmitt fundið frumv. til foráttu, að gjaldið væri jafnt á öllum varningi og því ranglátt. Hygg eg nú, að sama yrði upp á teningnum, ef brt.till. yrði samþykt. Breytingar þær, sem síðan hafa verið gerðar á frumvarpinu, miða að því að fullnægja óskum þeirra, sem vilja að gjaldið sé mismunandi eftir verði og þunga. Eg vil því leggja á móti því, að breyt.till. verði samþykt.