21.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1528 í B-deild Alþingistíðinda. (1900)

120. mál, farmgjald

Sigurður Sigurðsson:

Mig langar til að gera stutta grein fyrir brtill. þeirri, sem eg hefi leyft mér að koma með á þgskj. 687, viðvíkjandi 1. og 2. gr. þessa frumvarps, sem hér er til umræðu.

Við 2. umr. málsins hér í deildinni var því haldið fram, að samkvæmt frv. væri hér í raun og veru ekki um farmgjald að ræða, heldur toll. Því verður nú tæpast mótmælt, að eins og frumv, er úr garði gert, þá líkist þetta gjald, sem þar er ráðgert fremur tolli en farmgjaldi. Hingað til hefir þeirri reglu verið fylgt í okkar tolllöggjöf, að leggja tolla á fáar vörutegundir, en þeim mun hærri. Og þetta er í sjálfu sér, eins og hér hagar til, góð regla. En með frv. þessu er lagt gjald eða tollur á flestar vörutegundir, er hingað flytjast, og að því leyti er vikið frá þeirri reglu, er fylgt hefir verið að undanförnu. Þó er hér þess að gæta, að vanalega munu tollar alstaðar lagðir á nettovigt eða mál varanna; en hér er gjaldið lagt á vörurnar með umbúðum. Þetta gerir nokkurn mun, að því er eftirlitið snertir. Hins vegar verð eg að álíta, að þessi flokkaskifting á vörunum, sem frv. ráðgerir, sé afar óeðlileg og geri innheimtu og greiðslu gjaldsins flókna og tafsama. Hún blátt áfram freistar til undanfærslu og bragða, að því er greiðslu þess snertir. Og það er mjög hætt við því, að það verði tilfinnanlegar vanheimtur á þessu gjaldi fyrir landsjóðinn. Auk þess virðist flokkaskiftingin gerð mjög af handahófi, og að minsta kosti er mér ekki vel ljóst, á hverju hún eiginlega byggist.

Flokkaskiftingin og í sambandi við hana mismunurinn á gjaldinu er greiða skal, er í mínum augum aðalgalli frv. og hann verulegur. Fyrir því hefi eg gert tilraun til þess að bæta úr þessu með breyt.till. minni. Flokkaskiftingunni er þar alveg slept, en í þess stað komi ákveðið gjald, er greiðist af öllum vörum, er hingað flytjast, miðað við þunga þeirra, að undanteknum trjávið og kolum og þeim fáu vörutegundum, sem undanþegnar eru þessu gjaldi. Þetta fyrirkomulag hefir þann mikla kost, að það er einfalt og óbrotið og gerir innheimtu og greiðslu gjaldsins miklu auðveldari, en hún hlýtur að verða eftir frumv. Með þessu móti verður tollgæzla algerlega óþörf. En eins og frv. er nú á sig komið, þá þyrfti hennar við, ef vel væri. Eg geri þó ráð fyrir, að það detti engum í hug, að setja tollgæzlu á stofn fyrir þetta frumvarp, þótt það verði að lögum, enda mundi það ekki svara kostnaði. — En þegar á þetta er litið og fleira, þá vænti eg þess, að það verði mönnum ljóst, að breyt.till. mín er til bóta.

Í brt. er gert ráð fyrir því, að leggja 50 aura gjald á hverja smálest af kolum. Það mundi ekki hafa í för með sér neina verulega verðhækkun á þessari vöru. En það sem fyrir mér vakti með því að leggja gjald á aðflutt kol, var meðal annars það, að útlendingar kaupa og nota mikið af kolum, er hingað flytjast, bæði trollarar, herskip o. fl. skip. Sanngjarnast hefði þó verið, að leggja að eins toll á þau kol, er útlendingar kaupa hér og fara með; en það mundi reynast erfitt að koma því við. Það yrði þá að vera eins konar útflutningstollur; en hann hlyti að líta illa út í augum útlendinga, þar sem kolin eru aðflutt vara. En þetta gjald, sem hér er um að ræða, kemur jafnt niður á alla, bæði réttláta og rangláta og það er að vísu galli; en bót í máli er það, að gjaldið er lágt og ótilfinnanlegt fyrir þá, sem kaupa kolin, en landssjóð munar um það.

Gera má ráð fyrir því, að menn hafi það á móti minni tillögu, að gjaldið komi misjafnt niður eftir verðmæti hinna ýmsu vörutegunda, þar sem það er eitt og hið sama, hvort sem varan er dýr eða ódýr. En til þess er því að svara, að í framkvæmdinni hefir það ekki svo mikið að segja, einkum þar sem gjaldið er svona lágt. Og jafnvel þó eitthvert misrétti ætti sér stað í þessu efni, þá er á hitt að líta, að þessi leið, sem tillaga mín fer fram á, er miklu einfaldari og kostnaðarminni fyrir þá, sem gjaldið eiga að inna af hendi, og um leið tryggari gagnvart landssjóði.

Um tekjuaukann fyrir landssjóð, er frumv. hefir í för með sér, eru skiftar skoðanir. Meðmælendur frumvarpsins telja hann alt að 180 þús. kr. Aðrir efast um, að hann nemi svo miklu. En hvað sem því líður, þá hygg eg óhætt að fullyrða, að samkvæmt brtill. minni verði tollaukinn að minsta kosti ekki minni, en vænta má, að hann geti orðið eftir frumv.

Háttv. framsögumaður gat þess, að brtill. mín kæmi í bága við frumvarpið. Það gerir hún nú í sjálfu sér ekki, að öðru leyti en því, að hún kollvarpar 1 og 2. gr. þess. En þar bætir hún frumv. að stórum mun, eins og eg hefi þegar sýnt fram á. Eg vænti þess því, að tillagan verði samþykt, þótt hún fyndi ekki náð fyrir augum framsm. Verði till. mót von minni feld, þá býst eg þó við að greiða atkvæði með málinu út úr deildinni, af þeirri einu ástæðu, að eg álít lífsnauðsynlegt að útvega landssjóði einhverjar tekjur. En eg geri það nauðugur, því að eg álít frumvarpið harla óaðgengilegt, eins og það er, margra hluta vegna, og lítt framkvæmanlegt, ef það yrði að lögum.