18.02.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1598 í B-deild Alþingistíðinda. (1966)

163. mál, siglingalög

Ráðherrann (B. J.):

Þetta frumv. er, eins og virðulegir þm. sjá, allmikill lagabálkur, kringum 300 greinar og freklega það, og mætti því búast við, að hér væri um mikið vandamál að tefla, en svo er þó ekki. Þetta frv. er íslenzkað eftir siglingalögum, sem gengið hafa nú um 10—20 ár um öll Norðurlönd, þangað komin frá Þjóðverjum. Frá þessum lögum hefir því verið vandlega gengið, svo þau verða varla bætt. Vitanlega hafa í þessu frumv. verið gerð þau afbrigði, sem við þóttu eiga eftir staðháttum. Mörgum fésýslumönnum og skipaútgerðarmönnum hér á landi mun hafa þótt ilt undir að búa að hafa ekki lög um þetta efni. Dómarar hér hafa neyðst til að fara eftir þessum lögum meira eða minna eða réttara sagt dæmt eftir »analogi« við þau. Skal eg leyfa mér að skjóta því til virðul. þm. Vestm. (J. M.), hvort svo sé ekki.