21.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1600 í B-deild Alþingistíðinda. (1969)

105. mál, íslenskur fáni

Flutningsm. (Bjarni Jónsson):

Eg skal ekki tala mörg orð um þetta mál að sinni. Eg býst við því, að það fái framgang, og vil óska, að í það verði skipuð 5 manna nefnd.

En þó vil eg geta þess þegar við 1. umr., að þar sem Íslendingar voru áður mestir sjómenn allra þjóða, og komust fyrstir alla leið milli Noregs og Vínlands, og þar sem þeir hafa nú aftur lagt hönd á hjálmunvölinn, þá er það leitt um svo duglega drengi, sem þegar er sýnt, að þeir eru, ef þeir skulu sigla undir öðrum fána en sínum eigin.

Jafnvel í þeim lögum, sem Danir hafa neytt inn á oss — stöðulögunum — eru verzlun og siglingar talin til sérmála vorra. Og til siglinganna hlýtur það að teljast, undir hverjum fána menn sigla. Þetta frumv. er því til þess gert, að fylgja fram viðurkendum og sjálfsögðum rétti vorum og bæta úr því, sem hingað til hefir vantað.

Eins og eg tók fram áðan, legg eg það til, að 5 manna nefnd verði skipuð, til þess að þetta mál geti orðið sem bezt undirbúið, áður en það verður samþykt, sem eg efast ekki um að verði.