22.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1608 í B-deild Alþingistíðinda. (1978)

105. mál, íslenskur fáni

Hannes Hafstein:

Háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) mun sanna það, að meira þarf við en orð hans og óskir til þess að flokkur vor hverfi úr sögunni, og býst eg við, að hann verði langlífari en sérkredda hans. Annars er réttast fyrir alla að »hælast sem minst í máli, metast heldr of val felldan«.

Það ætti að vera öllum augljóst, að það er ekki nóg fyrir okkur að taka upp eitthvert flagg — jafnvel þótt Stúdentafélagið og »ungmennafélögin« hafi samþykt það, og segja: »Nú skulum við sigla, bæði utanlands og innan, undir þessu flaggi, og engu öðru«.

Skip hafa fána til þess að sýna undir vernd hvers ríkis það standi, og því er hver sá fáni einskis virði í siglingum, sem ekki er viðurkendur af öðrum ríkjum, sem merki sjálfstæðs ríkisvalds. Vér, sem ekki eigum eitt einasta skip, sem ekki er »registreruð« »dönsk eign«, gerum oss að eins hlægilega með slíku uppþoti sem þessu. En það tjáir víst ekki að reyna að koma vitinu fyrir hinn háttv. meiri hluta hér í deildinni í þessu máli. Eg hefi álitið það skyldu mína að segja mína skoðun, þótt eg þykist vita, að frumv. þetta eigi alls ekki að fara út úr þinginu, og að hér er ekki um annað að ræða en einn af þessum venjulegu selbitum í vasann og »títuprjónastingjum« til Dana og núverandi ráðherra, sem eiga að vera eins konar hefnd fyrir það, að háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) hætti að vera »tilvonandi«, líkast til fyrir fult og alt.