22.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1608 í B-deild Alþingistíðinda. (1979)

105. mál, íslenskur fáni

Bjarni Jónsson:

Háttv. 1. þm. Eyf. (H. H.) sagði, að mál þetta mundi vera borið fram nú til þess að fella núverandi ráðherra, en eg get fullyrt, að þetta er ekki annað en skáldskapur, og það slæmur skáldskapur, stirður og illa ortur. Heldur þóttu mér og óviðkunnanleg orð hans um, að frv. þetta væri ekki annað en títuprjónsstingur gagnvart Dönum. Mál þetta kemur í rauninni Dönum alls ekki við; hitt mætti sannarlega nefna títuprjónssting, þessar sífeldu kvartanir sumra þingmanna fyrir Dana hönd.

Það getur vel verið, að við fáum ekki fánann viðurkendan, ef Danir snúast öndverðir gegn honum; En það vinst þó, að allir, bæði Danir og aðrir, hljóta að sjá, hvað við viljum.

Eg hygg það vafalaust, að vér höfum rétt til þess að taka upp siglingafána samkvæmt stöðulögunum; hitt getur verið efamál, hvort við höfum rétt til þess að taka upp stjórnvaldafána, en því mætti þá sleppa, þangað til fáninn er orðinn íslenzkur.

Mér hefir aldrei getað skilist, hvers vegna alþingishúsið og stjórnarráðshúsið eiga endilega að hafa fána; mér sýnist að þau hús gætu vel verið fánalaus.

Eg skal svo ekki fjölyrða frekar um þetta mál, en útaf því sem háttv. 1. þm. Eyf.

(H. H.) sagði, að fáni stúdentafélagsins væri ekki enn þá orðinn að þjóðfána, vil eg geta þess, að einmitt þessvegna er þetta frumv. borið fram. Í millilandanefndinni gátu Danir vel hugsað sér, að Ísland hefði sérstakan fána, en hvers vegna þurftum vér að afsala oss hermálum, til þess að fá hann? Eg tel holt og sjálfsagt, að vér höldum öllum réttarkröfum vorum á lofti, það vitnar fyrir seinni tíma mönnum um vilja vorn, þótt oss ef til vill bresti mátt til þess, að fá þeim framgengt.