09.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1819 í B-deild Alþingistíðinda. (2189)

44. mál, kaup á Skálholti

Jón Sigurðsson:

Þetta frv. var hér á þingi síðast og þá felt af háttv. Ed. Eg skal ekki tala langt mál um það, bæði af því að umr. urðu litlar þá og svo hinu, að eg sé ekki, hver nauðsyn er á þessu frv. og virðist mér svo, sem ástæður hafi vantað fyrir því við framsöguna.

Nú er sú stefna efst á baugi, að ábúendur jarða eigi að vera sjálfseignarbændur, og álít eg það að vísu heppilegt, enda hafa í því skyni verið seldar margar landssjóðsjarðir og eg skal játa, að það kann að hafa verið gert full mikið að því, að selja höfuðból þannig. En með þessu er lítil bót á því ráðin, og úr því menn einu sinni hafa tekið þessa stefnu, þá sé eg ekki ástæðu til, að fara að láta landssjóð kaupa aftur fornt höfuðból, sem komið er í aðra eins niðurníðslu og sagt er að Skálholt sé. Þar við bætist, að ekki er sagt, að jörðin fáist einu sinni keypt, eða hvergi hefi eg séð neitt um það. Þetta mál er því harla óupplýst.

Þá er enn að geta þess, að verðið er alls ekki ákveðið, og það er þó víst ekki meiningin, að jörðina beri að kaupa, hvaða verði sem er. Og þótt svo væri nú ekki, þá sé eg ekki betur, en að óhlutvönd stjórn kynni að geta makað krókinn á slíkri kaupaheimild. Það er hægur vandi að láta einhvern »prókuratoren« kaupa jörðina og kaupa svo aftur af honum, úr því að verðið er ekki takmarkað. Eg verð því að líta svo á, að frv. þetta sé óheppilega ótakmarkað og yfirleitt lítt rætt og undirbúið, og þess vegna mun háttv. Ed. hafa felt það á síðasta þingi.

Eg legg því til, að samþykt verði rökstudd dagskrá í málinu, því að eins og það er vaxið nú, álít eg ekki rétt að samþykkja það. Annað mál væri það, ef það sannaðist í umræðunum í dag, að þetta sé nauðsynjamál. Þá skal eg ekki verða því til fyrirstöðu, að málið nái fram að ganga.