06.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1882 í B-deild Alþingistíðinda. (2270)

38. mál, byggingarsjóður

Flutningsmaður (Björn Kristjánsson):

Háttv. þm. Mýr. (J. S.) hefir lagt móti frumv., að það næði fram að ganga, og fært til þess ýmsar ástæður. En þessi mótstaða hans kemur fram af því, að hann hefir ekki heyrt mína ástæðu fyrir frumv. en hún er sú, að koma á jafnrétti með báðum bönkunum.

Háttv. þm. mintist á starfsfé bankans, að það hefði aukist við nýja lántöku. En það er athugandi, að fyrir lánið verður að greiða nokkuð háa vexti, svo að arðurinn verður ekki mikill. Lánið var meira tekið til að hjálpa mönnum yfirleitt og svo til að borga skuldir bankans.

Háttv. þm. mintist og á fjölgun starfsmanna í bankanum. Ekki þarf sú fjölgun að vera sprottin af auknum viðskiftum. Til þess getur legið sú ástæða, að koma þarf bankanum í reglu, sem hann hefði þurft að vera í frá öndverðu.

Háttv. þm. sagði enn fremur, að gjaldið væri sanngjarnt og að rétt væri að íþyngja honum með þessu gjaldi, af því að bankinn væri landseign. Það sýnist mér ekki rétt. Það er einmitt nauðsynlegt vegna þess að bankinn er landsstofnun, að hann geti notið fulls jafnréttis og trausts, og því ætti háttv. þm. að réttu lagi að styðja frumvarpið, til þess að bankinn vaxi að trausti.