06.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1884 í B-deild Alþingistíðinda. (2273)

38. mál, byggingarsjóður

Pétur Jónsson:

Af því hér er verið að ræða um landsbankann og útgjöld hans, þá ætla eg að gera fyrirspurn, sem að vísu ekki beinlínis snertir landsbankann, til bankastjórans. Ef ráðh. (B. J.) hefði verið viðstaddur, þá hefði eg spurt hann, en af því hann hefir ekki látið sjá sig hér, þá beini eg fyrirspurninni til bankastjórans. Það er svo frá skýrt í skilagrein, sem er aftan við landsreikninginn fyrir 1909 fyrir lánsfé því, er stjórnin fékk til þess að kaupa bankavaxtabréf landsbankans, að fram til ársloka 1909 hafi orðið rentutap á þessu láni 4664,45 kr. Eg er í vafa um, hvar þessi skaði kemur niður. Hvort hann lendir á landsbankanum eða landssjóði. Eg hefi leitað bæði í landsreikningunum og í aukafjárlögum, en ekki getað fundið, að leitað sé aukafjárveitingar á þessari upphæð. En einhvernveginn þarf hún að greiðast. Þess vegna hefi eg nú komið með þessa fyrirspurn til bankastjórans til þess að vita, hvort svo gæti verið, að landsbankinn hefði greitt hana.