06.05.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 2073 í B-deild Alþingistíðinda. (2542)

160. mál, strandferðir

Framsm. (Þorleifur Jónsson):

Nefndin í þessu máli hefir öll orðið á eitt sátt, eins og nefndarálitið ber með sér. Nefndarálitið er ljóst og greinilegt, en eg vil þó leyfa mér að segja nokkur orð um breytingar þær, sem nefndin leggur til að verði samþyktar.

Nefndin hafði til meðferðar tvær þingsályktunartillögur, á þgskj. 107 og tillöguna á þgskj. 164, og 2 viðaukatill. (á þgskj. 118 og 185). Nefndin hefir athugað þessar tillögur nákvæmlega og reynt að kynna sér málið sem bezt. Meðal annars hefir hún átt fund með skipstjórunum á strandferðabátunum og fengið hjá þeim upplýsingar. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu, að flestar þessar tillögur hefðu við allgóð rök að styðjast, og hefir hún því mælt með þeim mörgum. En einstöku hefir hún þó vísað á bug.

Eg skal taka tillögurnar eftir röð.

Það er þá fyrst tillagan á þgskj. 107, um að Vestfjarðabáturinn komi í hverri ferð við í Bolungarvík. Þar er fólksmargt, verstöð mikil og verzlun; það er líka lítill krókur fyrir bátinn að koma þar við, svo þessi tillaga er ekki ósanngjörn, og mælir nefndin með henni.

Annar liður á þessu þingskjali fer fram á það, að báturinn komi tvisvar við á Arngerðareyri. Um þennan stað er alt öðru máli að gegna en Bolungarvík. Arngerðareyri liggur langt inni í Ísafjarðardjúpi, og það er mikill krókur að koma þar við, svo þetta mundi verða mikill krókur fyrir bátinn. Einnig eru reglulegar gufubátsferðir og mótorbátaferðir um Djúpið, svo þær ferðir geta bætt það upp, þótt strandferðabáturinn sé ekki látinn koma þar við. Menn verða að fara varlega í það, að íþyngja strandferðabátunum með mörgum viðkomustöðum fram yfir það sem er, því þá er hætt við, að þeir geti ekki fylgt áætlun. En það kemur sér ávalt mjög illa, ef þeir geta ekki haldið áætlun. Eg skal geta þess, að »Vestri« hefir nú 47 viðkomustaði milli Reykjavíkur og Akureyrar. Og það er lítt gerlegt að fjölga þeim að mun, einkum úrleiðis. Nefndin getur því ekki aðhylst þessa tillögu.

Eg skal geta þess, að nefndin hefir sett á þgskj. 807, allar þær tillögur, er þá lágu fyrir, og sem hún aðhyltist. En svo hafa komið fram ýmsar nýjar viðaukatillögur við tillögur nefndarinnar. Ein þeirra er frá háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) og fer hún þess á leit, að báturinn komi í hverri ferð við á Hesteyri í Ísafjarðardjúpi. Nefndin hefir athugað þessa tillögu og getur hún heldur ekki mælt með því, að hún sé samþykt, eins og hún liggur fyrir. En nefndin mundi mæla með því, að báturinn kæmi þar í 2—3 ferðum, með því þar er verzlun og hvalveiðastöð. Það er heldur ekki mikill krókur að fara þangað.

Þá hefir háttv. 1. þm. Skagf. (Ól. Br.) komið með viðaukatill. um, að báturinn sé látinn koma við í Selvík á Skaga. Nefndin mælir með því, að báturinn komi þar við í tveim ferðum fram og aftur. Lengra sá hún sér ekki fært að fara. Sami háttv. þm. hefir enn komið með tillögu um, að báturinn komi við á Kolkuós í þrem ferðum; það er ekki mikill krókur fyrir bátinn, að koma þar við, og ekki bætt við nema einni ferð, því nú hefir hann áætlun þangað tvisvar, svo nefndin leggur til að þessi tillaga verði samþykt.

Þá skal eg minnast á tillögur háttv. þm. Snæf. (S. G.) á þgskj. 118, um að báturinn komi við í hverri ferð fram og aftur, á Búðum, Hellissandi og Grundarfirði. Nefndin er því meðmælt, að báturinn komi við á Búðum og Hellissandi í hverri ferð fram og aftur, og er það nauðsynlegt, því brim er þar oft og ilt í sjó, og hindrar samband við land í sumum ferðum. En á slíkum stöðum er nauðsynlegt, að strandferðabátarnir hafi sem oftast áætlun til viðkomu, því með því móti verða þó einhverjar ferðirnar að notum. Þá hefir nefndin bætt inn Kvíabryggju í Eyrarsveit og leggur nefndn til, að báturinn komi þar við í tveim ferðum. Höfn er þar góð, og heldur ekki mikill krókur, enda kemur strandferðabáturinn þangað stöku sinnum, hvort sem er, án áætlunar, en betra að hafa vissa áætlunardaga.

Þá er þingsál.till. á þgskj. 164, sem er aðallega viðvíkjandi ferðum Suðurlandsbátsins. 1. liður þessarar tillögu fer fram á að betra skip komi í stað »Perwie«, sem hefir verið notað til þessara ferða, því það er ekki hægt að segja, að »Perwie« sé viðunanlegt strandferðaskip, enda hefir verið töluverð óánægja með hana þennan tíma, sem hún hefir farið ferðirnar. Sérstaklega er hún illa fallin til fólksflutninga. Farþegarúmið er mjög óþægilegt og lítið, það geta að eins verið 8—10 manns á fyrsta farrými, en annað og þriðja farrými er ekki til, svo eg viti. Einnig er mjög kvartað yfir því, að hún sé ganglítil, og komist því lítið áfram, ef ilt er í sjó, eða mótstormur, og þess vegna á hún líka oft mjög erfitt með að halda áætlun, eins og sýndi sig síðastliðið sumar, því þá var hún oftast langt á eftir áætlun. Auðvitað getur það komið fyrir, að skipið tefjist á vondum höfnum, en því meira áríðandi er, að það sé hraðskreitt meðan það er á ferð hafna á milli. Þar sem »Perwie« er ganglítil, og hefir algerlega ófullnægjandi farþegarúm, er ástæða til þess að heimta betra skip af útgerðarfélaginu, og nefndin leggur mikla áherzlu á, að það sé gert og stjórnin gangi ríkt eftir, að félagið haldi loforð, sem það mun hafa gefið um betra skip, hið bráðasta. Enda á þessi hluti landsins heimting á, að hafa jafngott strandferðaskip, eins og hinir hlutar þess.

2. liður þessarar tillögu fer fram á, að báturinn hefji ferðir sínar í miðjum apríl, eins og hinir strandferðabátarnir. Þetta er nauðsynlegt, því hafnir á þessu svæði eru vondar og skipagöngur engar frá því á haustin, að báturinn hættir ferðum sínum. En í apríl er oft alt eins gott í sjó fyrir Suðurlandi eins og í maí. Það má einnig geta þess, að á þessum slóðum er meiri hafíshætta í maí, en í apríl, eins og sýnir sig nú. Nefndin hefir því lagt áherzlu á, að Suðurlandsbáturinn hefji ferðir sínar ekki seinna en í miðjum apríl.

3. liðurinn í þingsáltill. á þgskj. 164 fer fram á það, að báturinn hafi aðal endastöð að austan á Eskifirði. Síðastliðið sumar fór báturinn oft til Eskifjarðar þótt það stæði ekki á áætlun hans, og væntir nefndin, að útgerðarfélagið hafi eigi neitt á móti þessari tillögu, né heldur hinni, að báturinn fari helzt í annarihvorri ferð til Seyðisfjarðar. Það tryggir og eflir samgöngur milli Suðurlands og Austurlands.

4. liður þessarar sömu till. fer fram á, að Suðurlandsbáturinn hafi viðkomustað við Ingólfshöfða í 1 eða 2 ferðum vegna Öræfinga. Það er ekki hægt að búast við, að það verði að miklum notum, en þó gæti það hepnast, ef ládeyða væri. Það er enginn krókur fyrir bátinn að koma þangað, þegar hann fer austur, því hann fer framhjá höfðanum, hvort sem er. Og ef slæmt er í sjó, þá heldur hann áfram, svo þetta tefur ekki fyrir honum.

Þá hefir nefndin tekið það upp, að báturinn komi við í Papey. Það er enginn krókur, því báturinn siglir þar fram hjá. En bóndinn þar hefir mikið umleikis, og þarf að hafa mikla flutninga milli lands og eyjar. Það gæti komið að miklu liði, þótt báturinn kæmi þar við að eins í stöku ferð. Það mundi ekki tefja ferð hans að mun, og þessvegna væntir nefndin þess, að útgerðin muni ekki verða á móti þessu.

Áður en eg lýk máli mínu um ferðir Suðurlandsbátsins, skal eg geta þess, að við þær hafnir, sem brimhætta er, þá er nauðsynlegt, að báturinn bíði í 2—3 klukkustundir, til þess að sjá, hvort brimið lægi ekki, því það er mjög óþægilegt fyrir landsmenn á slíkum stöðum, að báturinn haldi viðstöðulaust áfram, án þess að bíða neitt. Brim getur lægt alt í einu, og þá er skipið á bak og burtu. En notin missast algerlega af þeirri ferðinni.

Báturinn þarf að hafa nægan tíma til ferðanna. Og nefndin ætlast til, að ferðaáætlun Suðurlandsbátsins sérstaklega sé þannig, að honum sé ætlaður nægilegur tími. Hún hefir ekki sett þetta beint inn í tillögurnar, en hún ætlaðist til, að það kæmi í ljós við framsöguna.

Þá fer síðasti liður tillögunnar á þgskj. 164 fram á það, að »Austri« komi oftar á Djúpavog, en nú á sér stað, helzt í hverri ferð. Nefndin leggur til, að hann komi oftar við í suðurleið en nú, einkum í 1. og 6. ferð og í austurleið í 2. ferð. Þess ber að gæta, að á þeim tíma er engin ferð héðan austur, en ferð þangað í maí væri einkar hentug fyrir þingmenn úr Suður-Múlasýslu og Austur-Skaftafellssýslu. En þótt þessum ferðum yrði bætt við, þá ætti báturinn að geta haldið áætlun. Upphaflega var það tilætlunin, að báturinn kæmi í hverri ferð við á Djúpavogi, en skipstjóranum á » Austra« þótti það of djarflega á stað farið. Nefndin hefir því dregið úr þessu, og komið með tillöguna á þgskj 807, og vonar hún, að sú tillaga verði samþykt.

Þá vil eg og geta þess, að það væri heppilegt, að meira samræmi væri á milli áætlana Suðurlands- og Austurlandsbátsins, þannig, að þeir hittust á ýmsum höfnum á Austurlandi. Gæti það verið til mikils hægðarauka fyrir fólk, sem bátana notar.

Þá er viðaukatillaga á þgskj. 940 frá háttv. þingm. Þingeyjasýslna beggja, um að »Austri« komi í hverri ferð við á Þórshöfn. Þar er verzlun mikil og mannmargt og þótt það sé nokkur krókur fyrir bátinn, vill nefndin mæla með því, að þessi liður verði samþyktur. Hér er heldur ekki nema um 1 eða 2 ferðir að ræða í viðbót við það sem er og sama máli er að gegna um viðkomu á Raufarhöfn og Fjallahöfn. Nefndin er því einnig samþykk, að báturinn komi við í Flatey á Skjálfanda í september. Það er enginn krókur að koma við þar, en til mikils hægðarauka fyrir ibúana.

Eg man nú ekki eftir fleirum tillögum, sem fyrir nefndinni lægju. Nefndin hefir brætt upp úr þeim tillögum, sem fyrir henni lágu, tillöguna á þgskj. 807 og vonast hún til, að sú tillaga verði samþykt og auk þess viðaukatillögurnar á þgskj. 836, um að báturinn komi við á Kolkuós í fyrstu og síðustu ferð og tillögurnar á þgskj. 940.

Eg man svo ekki, að eg þurfi að taka fleira fram viðvíkjandi þessu máli að sinni.