06.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 2139 í B-deild Alþingistíðinda. (2654)

166. mál, skilnaður ríkis og kirkju

Fyrirspyrjandi (Jón Jónsson 1. þm. N.-Múl.):

Það kom flatt upp á mig, að þessi fyrirspurn yrði tekin til umræðu hér í dag; eg vissi það fyrst, þegar eg kom inn í deildina í morgun; en það gerir ekki mikið til, því að hér er um einfalt mál að ræða.

Eg vil þá byrja með því, að þakka hæstv. ráðherra (B. J.) fyrir, að hann hefir tjáð sig fúsan til að svara fyrirspurninni.

Svo sem kunnugt er, skoraði síðasta alþingi á stjórnina að rannsaka, hvort nokkur leið væri til þess að gera aðskilnað ríkis og kirkju og leggja síðan frumv. um það fyrir alþingi, ef henni virtist það tiltækilegt. Þessu máli er nú svo komið meðal þjóðarinnar, að fjöldamargir óska, að sem fyrst verði gerð gagnger breyting á núverandi ástandi. Eg vil taka það fram nú þegar, að eg tel sjálfsagt, að bera slíkt mál sem þetta undir alla kjósendur landsins, áður en því verður ráðið til lykta. Nú vil eg leyfa mér að spyrja hæstv. ráðh. um, hvað gerst hafi í þessu máli; mönnum er ekki kunnugt, að stjórnin hafi aðhafst neitt, en væntanlega getur hæstv. ráðherra nú gefið fullnægjandi skýringar.