04.05.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 311 í B-deild Alþingistíðinda. (2701)

143. mál, tillögur yfirskoðunarmanna landsreikninganna 1908 og 1909

Framsm. (Eir. Briem):

Eins og nefndarálitið ber með sér, þá er nefndin samþykk öllum tillögunum. Þó er ein till., sem hún vill að feld sé í burtu, þó hún geti fallist á efni hennar; það er 7 till. Okkur virðist þessi till. eigi ekki heima í athugasemdum við landsreikningana; hún snertir þá ekki neitt. En nefndin hefir samt sem áður ekkert að athuga við till. í sjálfu sér. Þá vildi eg minnast nokkrum orðum á 3. till. Nefndin hefir ekkert á móti því að hún sé samþykt, en það sést í landsreikningnum, að það, sem hefir gefið tilefnið til þessarar till., er það að yfirskoðunarmenn landsreikninganna höfðu gert þær athugasemdir viðvíkjandi reikningum lagaskólans og gagnfræðaskólans á Akureyri, að þeir voru í vafa um, að hve miklu leyti þeir hefðu farið fram yfir áætlun. Í svari sínu við athugasemdunum sagði fyrv. ráðherra að lagaskólareikningurinn væri að sumu leyti „ekki greinilegur“ og reikningur gagnfræðaskólans „ekki vel aðgengilegur“. Af þessum ástæðum komu yfirskoðunarmennirnir með þessa tillögu. Nefndin vill láta þess getið um reikning lagaskólans, að hún hefir fengið að sjá skilyrðislausa kvittun stjórnarráðsins fyrir honum og hafði það ekkert við hann að athuga.

Um síðari reikninginn er það að segja, að reikningshaldarinn er hér sjálfur í deildinni og hefir skýrt frá því, að hann viti ekki, við hvað sé átt með þessum orðum.. Nefndin vildi láta þessa getið, en samt sem áður er hún tillögunni samþykk, því að þó að ástæður fyrir þessari till. séu eigi á rökum bygðar í þetta sinn, þá getur verið full ástæða til að vera strangur í slíkum efnum, þegar öðruvísi stendur á. Nefndin ræður því hv. deild til að samþykkja allar tillögurnar nema þá 7.