04.05.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 312 í B-deild Alþingistíðinda. (2702)

143. mál, tillögur yfirskoðunarmanna landsreikninganna 1908 og 1909

Ráðherra (Kr. J).:

Gegn einni af þessum tillögum hreyfði eg mótmælum í Nd.; það er 4. tillagan. Hún er að réttu lagi í tveim liðum. Í fyrri hluta hennar er skorað á stjórnina að taka upp í frv. til fjáraukalaga allar umframgreiðslur í landsreikningunum á fastákveðnum fjárveitingum. Þessi partur er algerlega óþarfur vegna þess að þetta er alt af gert. Svo er síðari hlutinn um umframgreiðslur á áætluðum upphæðum lögmæltra útgjalda. Það hefir ávalt farið eftir áliti stjórnarinnar, hvenær nauðsynlegt hefir verið að taka á aukafjárlög umframgreiðslur á lögmæltum fjárveitingum og áætluðum upphæðum. Þegar gjaldið er lögfyrirskipað og upphæðin er áætluð, þá felst einmitt í því það, að stjórnin á ekki að þurfa að heimta heimild á fjáraukalögum til að fara fram úr upphæðinni. Stjórnin á að geta dæmt um það, hvort umframgreiðslulán hafi verið nauðsynleg. Eg verð því að álíta þenna lið að sumu leyti óþarfan, og að sumu leyti rangan, og vil leggja til að hann sé feldur burt. Landstjórnin mun hlýðnast því fyrirmæli, að taka upp á fjáraukalög allar þær umframgreiðslur, sem ekki er bein eða óbein heimild fyrir í fjárlögunum. En hitt verð eg að álíta óþarft að skylda stjórnina til að taka upp á fjáraukalög hverja einustu umframgreiðslu á áætluðum en sjálfsögðum gjaldaupphæðum, hversu lítil sem er.