04.05.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 973 í B-deild Alþingistíðinda. (2724)

141. mál, einkaréttur landssjóðs á aðfluttum vörum

Ráðherra (Kr. J.):

Það var óþarfi af háttvirtum þingmanni Akureyrarkaupstaðar að stökkva svo upp á nef sér, svo eg noti hans eigin orð, út af ummælum mínum.

Það er langt frá því, að eg hafi neitt á móti milliþinganefnd. Eg álít, að hér sé um það stórmál að ræða, að nefnd sé rétt að skipa, en eg álít ekki rétt eins og sakir standa, að þingið kjósi mennina í hana. Þá verður þetta að bitlingi til flokksþarfa, en ekki lagður verðleikur á metaskálarnar, þar sem stjórnin þó mundi reyna að fara eftir verðleikum.

Eg lít svo á, að stjómin ætti ætíð að skipa þessar nefndir, hver sem hún væri. Hér er farið inn á braut, sem er mjög svo varhugaverð.

Það sem felst í 1. lið er fullkomlega nægilegt verkefni fyrir hina fyrirhuguðu nefnd; enda er tæplega rétt að láta sömu nefnd fjalla um öll þessi mál, sem hún á að hafa til meðferðar eftir tillögunni.

Hvort þessi nefnd getur verið búin að ljúka störfum sínum fyrir næsta þing, er ekki gott að vita, ef aukaþing verður haldið, en fyrir næsta reglulegt þing ætti hún að hafa lokið starfinu, svo að þing og stjórn fái notfært sér það. —