04.05.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 974 í B-deild Alþingistíðinda. (2725)

141. mál, einkaréttur landssjóðs á aðfluttum vörum

Kristinn Daníelsson:

Háttv. 3. kgk. þm. tók það fram, að nefndinni væri ætlað alt of mikið starf eftir tillögunni, eins og hún er nú. Og hæstv. ráðherra lét í ljós sömu skoðun. Eg get vel tekið undir það, að starfið er mikið og væri ærið nóg verkefni handa fleiri nefndum. En vegna þess, að slíkar nefndarskipanir kosta talsvert mikið fé, býst eg við að þingið, af sparnaðarástæðum, sjái sér ekki fært að skipa meira en eina nefnd, að svo stöddu. Hins vegar hygg eg vera gert of mikið úr óskyldleik þessara mála, sem nefndinni er ætlað að rannsaka. Og þó að starfið sé mikið, þá hygg eg að það geti ekki skaðað, þó að tvö hin síðari atriðin fylgi með. Nefndin mundi þá aðallega íhuga fyrsta atriðið, en láta hin sitja á hakanum og að eins taka þau til athugunar að svo miklu leyti sem fé og tími entist til. Þess vegna vil eg láta tillöguna halda sér að þessu leyti eins og hún kom frá n. d.

Viðvíkjandi 4. breytingartillögunni skal eg að eins geta þess, að eg er þakklátur flutningsmönnum fyrir það, að þeir hafa tekið hana aftur. Mér sýnist eiga fult eins vel við að þingið kjósi nefndarmennina, ekki af því að eg vilji að þetta sé notað sem pólitískir bitlingar, heldur af því að það má ætla, að mismunandi flokkar líti sínum augum hver á þessi mál, og er æskilegt að skoðanir beggja komi fram í nefndinni. Enda hefir það sýnt sig áður, að menn úr ólíkum flokkum hafa getað komið sér vel saman og unnið í bróðerni án flokkarígs í milliþinganefndum, því að þar kemur hið pólitíska dagstríð ekki til greina.

Háttv. þm. Ísafjarðar vildi rekja orsakirnar til þess, að þörf er á milliþinganefnd, til ónýtrar stjórnar á undanförnum árum. Þetta er ekki rétt álitið. Milliþinganefndir eru skipaðar í öllum löndum og þarf ekki að vera ónýtri stjórn að kenna þó að þeirra sé þörf hér eins og annarstaðar.

Eg skal ekki blanda mér í ýms aukaatriði, sem hafa slæðst inn í umræðurnar um þetta mál Þó vil eg ekki láta hjá líða að mótmæla þeim ummælum háttv. 5. kgk. þm., að þjóðin hafi sýnt þroskaleysi við kosningarnar 1908.