04.05.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 975 í B-deild Alþingistíðinda. (2726)

141. mál, einkaréttur landssjóðs á aðfluttum vörum

Augúst Flygenring:

Hv. þm. Akureyrar mintist á 1. breytingartillöguna á þskj. 878, og kvað hana vera óþarfa af því, að efni hennar fælist að sjálfsögðu í 1. lið tillögunnar, eins og sá liður er nú. Eg vil benda á, að eftir tillögunni eru nefndarmenn beint bundnir við að rannsaka einkarétt á aðfluttum vörum og engar aðrar aðferðir til að afla landsjóði tekna. Og ef nefndinni sýnist sú leið ótiltækileg, þá hefði hún ekki leyfi til að taka til rannsóknar neinar aðrar leiðir, eða að minsta kosti ekki neina hvatningu til þess. Þess vegna höfum við komið fram með þessa breytingu. Það er ófært af þinginu að benda á einkasölurétt sem þá einu réttu leið til að auka tekjur landsjóðs. — Eg get tekið undir það sem hv. þm. Ísafj. sagði, að það hefði verið réttara af þinginu að athuga, hvort ekki væri fært að auka tekjurnar með þeim tollstofnum, sem við höfum. En þar sem þingið hefir ekki gert neitt teljandi í þá átt, þá er fult þörf á milliþinganefnd til að íhuga þessi mál. En að binda verksvið nefndarinnar við einkasölurétt, það finst mér ófært.

Hv. þm. Vestur-Ísafj. hélt því fram, að hvor þingflokkurinn héldi fram sinni stefnu í fjármálunum. Þetta er ekki rétt, því að flokkarnir hafa alls enga stefnu í fjármálum. Þar fer alt á ringulreið, en alls ekki eftir flokkaskiftingunni, sem nú er á þingi.

Hvað 4. breytingartill. á þskj. 878 snertir, þá höfum við að vísu tekið hana aftur. En í rauninni álít eg það rangt, því að eg álít að stjórnin ætti að útnefna alla nefndarmennina. Við höfum tekið tillöguna aftur eingöngu vegna þess, að annars verður málinu hleypt í skipbrot. Við höfum leitað fyrir okkur í neðri deild og höfum komist að raun um, að málið muni ekki ganga fram að öðrum kosti.