15.03.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 681 í B-deild Alþingistíðinda. (2791)

92. mál, brúargerð á Jökulsá

Sigurður Hjörleifsson:

Mér finst mál þetta ekki þannig vaxið, að ástæða sé til þess að fjölyrða um það mikið í þetta sinn, og auk þess lít eg svo á, að óþarft sé að setja það í nefnd. Það er öllum ljóst, að á landi hér eru margar fleiri ár, sem þörf er á að brúa, og ber þá frá mínu sjónarmiði að taka tillit til þess hvar þörfin er mest, og virðist mér þá liggja næst þær árnar, sem umferðin er mest yfir.

Eg get bent á margar fjölfarnar ár, og illar yfirferðar, sem enn eru óbrúaðar, svo sem Eyjafjarðará. Héraðsvötnin og ýmsar fleiri stórár norðanlands, og Rangá þekkja allir. Annars er eigi alllítill vandi að dæma um slíka hluti að lítt rannsökuðu máli. En eins og eg hefi þegar tekið fram, tel eg nefnd óþarfa, og málið verði látið ganga til 2. umr. Auk þess verður bráðum skipuð hér fjárlaganefnd, og væri þá eðlilegast, að sú nefnd fjallaði um málið.