08.05.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 988 í B-deild Alþingistíðinda. (2795)

164. mál, gufuskipaferðir

Ari Jónsson:

Eg ætla að leyfa mér að tala fáein orð af því, að eg hefi skrifað undir nefndarálitið með fyrirvara. Sá fyrirvari gildir þó ekki um tillögurnar sjálfar, eg er þeim alveg samdóma og greiði þeim atkvæði. En eg er ekki sammála öllum þeim ástæðum, sem í nefndarálitinu standa. Eg lít svo á, að skipaferðir þær, sem vér höfum haft undanfarið ár, hafi verið til stórbóta, en að áætlun skipanna hafi verið óhaganleg og því ekki ferðafjöldinn komið að fullum notum. Eftir þeim ferðafjölda, sem vér nú höfum, bæði að því er snertir millilandaferðirnar og strandferðirnar, þá yrðu samgöngurnar góðar, ef hægt væri að koma á betra samkomulagi um ferðirnar hjá félögunum. Skipin fara svo oft nú frá báðum félögunum nálega samtímis í ferðirnar, en svo líður aftur langur tími á milli ferða. Þetta þyrfti að jafna. Stjórnarráðið þarf fyrst að búa til áætlan um ferðirnar og fá svo félögin til þess að fara sem mest eftir því.

Eg er sammála nefndinni um það, að sum skip eru ófær, t. d. Perwie. Aftur á móti eru sum góð, eins og t. d. Botnía, skip sameinaða félagsins og Sterling, skip Thore.

(L H. B.: Sterling!)

Já, Sterling, eg þekki það skip sjálfur, og tel það alveg eins gott farþegaskip og Botníu. Enda mun vart nokkurt skip flytja eins marga farþega milli Íslands og útlanda eins og einmitt Sterling. Eg álít að eg geti fullkomlega hlutdrægnislaust dæmt um farþegaskip beggja félaganna.

Eg er samþykkur því, að nauðsynlegt sé að fá áætlun skipanna út um landið fyr en hingað til hefir verið. Það kemur oft fyrir, að margir landsmanna hafa ekki haft not af janúarferðunum fyrir það, hvað áætlanirnar hafa komið seint Þær þyrftu að komast til landsmanna í október eða snemma í nóvember, til þess að fyrstu ferðirnar eftir nýárið geti orðið að fullum notum.