25.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1387 í B-deild Alþingistíðinda. (2799)

92. mál, brúargerð á Jökulsá

Pétur Jónsson:

Það má segja, að nú sé komið dálítið annað hljóð í strokkinn á þessu þingi um brúamál, ef allar þessar till. verða samþyktar, og satt að segja mundi það gleðja mig, ef þingið færi að sýna meiri rögg af sér í brúamálum, en verið hefir nú um skeið, því að eg álít það mjög illa ráðið, hve mjög það hefir slegið slöku við þau undanfarin síðustu ár.

Vatnsföllin eru verstu farartálmar hér á landi, og það er undarlegt, þar sem búið er með vegalögum að setja fast vegakerfi og leggja fram jafnmikið fé og gert hefir verið til vega, að þá skuli ekki hafa verið gerð meiri gangskör að því en verið hefir, að koma brúm á aðaltorfærurnar, og eg er viss um, að fé hefir verið varið í ýmislegt, sem síður skyldi en brýrnar. Að þessu leyti er eg samdóma þeim háttv. þm., sem heimta brýr á ár, sem eru á landssjóðsvegum. En smærri brýr á öðrum vegum álít eg ekki skylt eða ráðlegt, að landssjóður taki að sér á meðan svo mikið er ógert af hans eigin brúm, og sízt án mikils tillags frá hlutaðeigandi héruðum.

Frumv., sem hér liggur fyrir, er nú ekki nema um brúargerð á einni á, Jökulsá á Sólheimasandi, og er það komið hér inn á þingið af því, að mönnum hefir einmitt nú nýlega hugkvæmst, að áin sé brútæk, með kostnaði, sem kallast má bærilegur, og af því að hún er eitt hið mesta voða vatnsfall, versti og hættulegasti farartálmi af öllum þeim ám, sem enn eru óbrúaðar á alfaravegi. Ekki fyrir það, að Skeiðará og Jökulsá á Breiðamerkursandi séu ekki líka mjög miklar torfærur, en þær munu alls eigi brútækar og alls eigi farartálmi jafn margra. Eins og frumv. liggur fyrir, er meining þess sú, að Jökulsá á Sólheimasandi eigi að sitja fyrir öðrum ám, sem ekki er þegar veitt fé til. En ef farið er að setja inn ýmsar brýr á fleiri ár um leið, þá tapar frumv. gildi sínu og tilgangi. Þá yrði það undir næsta þingi komið, hver brúin fyndi náð fyrir augliti þess, því að þess er enginn kostur, að þær allar, sem tillögur liggja fyrir um, komist á í einu. Þess vegna er meiningarlaust að vera að samþykkja þetta.

Eg get getið þess innan sviga, að eftir því sem eg hefi bezt getað kynt mér málið, ættu brýrnar á Eyjafjarðará og Héraðsvötnum að sitja fyrir, næst á eftir Jökulsá á Sólheimasandi. En það er óþarfi að vera að samþykkja neitt um slíkt; þingið gæti ákveðið í hvert skifti, hverja brú það vildi taka fyrir næst. Þetta stendur hvort sem er alls ekki á fjárlögunum. Annað mál væri, ef Jökulsárbrúin yrði samþykt ein út af fyrir sig. Það þýddi, að sjálfsagt væri að hún sæti fyrir, og það er eina meiningin með frumv. En svo er einn vegur enn, sem fara mætti, og það er, að semja lög um brúagerðir á landssjóðsvegum, ákveða, að þeim skuli öllum lokið á því eða því árabili, og það eftir þeirri röð, sem stjórnin og landsverkfræðingur áliti réttasta. Það gæti orðið til þess, að ekki væri slegið slöku við þessar framkvæmdir. Eg mundi greiða mitt atkvæði með því, að þannig yrði farið að. Og þess vegna er eg ekki meðmæltur þessari rökstuddu dagskrá, heldur vil eg að málið sé tekið út af dagskrá, og að nefndin taki það til meðferðar að nýju á þessum grundvelli. Sama vakir líklega fyrir háttv. 1. þm. Skagf. (Ól. Br.). En annars álít eg málinu komið í óefni, eins og það horfir nú við, og mun eg þá samþykkja Jökulsárbrúna eina.