20.02.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 551 í B-deild Alþingistíðinda. (290)

49. mál, dánarskýrslur

Ráðherra (B. J):

Með því að þetta er stjórnarfrumvarp mun þykja hlýða, að eg mæli nokkur orð málinu til stuðnings. Mér þótti leitt að geta ekki verið á síðasta fundi hér í deildinni, þar sem einnig voru nokkur stjórnarfrumvörp til umræðu. En sökum embættisanna var mér ókleift að sækja þann fund. Og því miður getur vel borið svo undir, að eins standi svo á síðar, því að fundartíminn hér í deildinni er mjög óhentugur fyrir mig. Annars er það bót í máli, að flest það, sem ástæða var til að taka fram til stuðnings frumvörpunum að upphafi máls, mun vera nefnt í athugasemdunum við þau. Eigi að síður þykir mér hlýða, að vera viðstaddur þegar stjórnarfrumvörp eru rædd að upphafi og mun kosta kapps um það, ef kleift er.

Þetta frv. er það sem kallað er „afturganga“ frá síðasta þingi. Þá var samskomar frumvarp samþykt í efri deild, en felt í neðri deild með 1 atkvæðis mun. Stjórnin hefir nú leitast við að laga aðall. þá galla, sem þá urðu því að fótakefli. Má vel vera, að frumvarpið þyki enn ekki lýtalaust, en eg hygg þó, að vel megi við það bjargast eins og það er nú. Landlæknir telur nauðsynlegt, að málið fái fram að ganga, enda verður það naumast talið viðunandi lengur, að hvergi sé skýrslu að fá hér á landi um dauðamein manna. — Því leyfi eg mér að mæla með því, að deildin taki frumvarpið til meðferðar og leyfi því framgang, annaðhvort óbreyttu eða með þeim einum breytingum, að nái tilgangi sínum.