15.03.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 675 í B-deild Alþingistíðinda. (393)

92. mál, brúargerð á Jökulsá

Flutningsmaður (Gunnar (Ólafsson):

Eg get búist við því, að hv. deildarmönnum þyki þetta mál ef til vill nokkuð einkennilega borið fram, og að þeim, sumum hverjum virðist frv. ekki tímabært nú, einkum þar sem ekki er ætlast til, að það komi til framkvæmda fyrr en einhverntíma á ókominni tíð, nefnil. þegar fé verður veitt til þessa fyrirtækis í fjárlögunum. En það eru ýmsar ástæður til þess að mér fanst rétt að bera þetta mál fram á þessu þingi, þó að framkvæmdir á því geti átt nokkuð langt í land enn. Það er nokkuð sérstaklega ástatt um þessa á, Jökulsá, og öðruvísi en um allar aðrar stórár á landinu. Það er þegar búið að brúa allar aðrar ár á landinu, sem komast til jafns við hana að stærð og erfiðleikum. Hún er því sú á, sem þingi og stjórn ber nú frekar öllum öðrum ám að snúa sér að og brúa sem allra fyrst. Það er nauðsynlegt að ráða sem fyrst bót á þeim erfiðleikum og vandræðum, sem hún bakar héruðum þeim, er að henni liggja. Þessi á hefir ávalt verið illa kynt, eins meðal þeirra, sem ekki hafa séð hana, sem hinna, er þekkja hana, því að sögur hafa borist af henni um land alt. Þeir sem kynni hafa haft af henni munu og flestir játa, að þeir hafi farið með meiri virðingu yfir hana en flestar aðrar ár á landinu, og þótt all-agalegt að leggja út í hana. Því miður munu allt of fáir af hv. deildarmönnum hafa farið yfir hana eða séð hana eins slæma og hún getur stundum verið, en flestir munu þeir þó hafa haft sagnir af henni. Ánni er fljótlýst. Hún rennur á auðnum, en hefir skolað sandinum burtu, svo að nú rennur hún á hnullungagrjóti, sem hún kastar til og frá. Hún myndar víða eyrar, en grefur sig niður á öðrum svæðum. Þegar hún er lítil, er hún ekki sérlega hræðileg, en þegar hún er mikil og það er æði oft, þá rótar hún grjótinu til sem fysi, og má þá segja, að glamrið í grjótinu heyrist, er það rekst saman niðri í ánni. Við þetta bætist, að þegar hlaup eru í henni, ber hún með sér jakaplötur, sem, þó þær séu fremur þunnar, eru nægilega stórar og þungar til að setja hest flatan, er fyrir þeim verður, enda hefir það oft viljað til. Það munu líka allir játa, að stórhættulegt sé að leggja út í straumharða á í jakaburðum. En við þessa miklu erfiðleika búa, og hafa um allan aldur búið, Skaftfellingar, og að nokkru leyti líka Rangæingar. Þessara erfiðleika gætti miklu minna áður fyrr, þegar samgöngur voru minni, og Skaftfellingar fóru aðeins eina ferð á ári til Reykjavíkur eða Eyrarbakka, þó að vitanlega oft færust menn í Jökulsá, en aðrir mistu eignir sínar í hana. En síðan verzlun kom í Vík og lifna tók yfir héraðinu, hafa samgöngur vaxið mikið og ferðir til Reykjavíkur orðið miklu tíðari, og hefir það þá orðið mönnum æ tilfinnanlegra með hverju ári, hver vágestur þessi á er, og menn finna æ sárar til þess, hver vandræði það eru að búa við slíkt. Og auðvitað dregur það ekki úr óánægjunni, að menn sjá það, að þing og stjórn hafa snúið sér að öllum stórám á landinu og brúað þær, en látið Jökulsá afskiftalausa. Að vísu skal þess getið, að það hefir um langan aldur verið álitið ómögulegt að brúa þessa á, nema þá fyrir stórfé, en nú verður því ekki borið við lengur. Nú hefir verkfræðingur landsins skoðað hana og komist að þeirri niðurstöðu, að vel megi gera trygga brú á ána fyrir eigi meir en 78 þús. kr. Þegar héraðsbúar heyra það, að kostnaðurinn þurfi ekki að verða meiri, þó þetta auðvitað sé æði mikil upphæð, þá vex þeim hugur og gera kröfur til þess, að áin verði brúuð svo fljótt sem kostur er. Er þetta ástæðan til, að frv. þetta kemur fram nú. En vegna þess, að kostnaðurinn er þó æði mikill, er að eins farið fram á, að áin verði brúuð svo fljótt sem unt er, það er að segja, þegar fé verður veitt til þess í fjárlögunum. Af þessari ástæðu geta hv. þingdeildarmenn vel greitt atkv. með þessu frv., þó að þeir kunni að álíta, að ekki sé fé fyrir hendi nú til þessa fyrirtækis, því að frv. leggur engin útgjöld á landssjóð sem stendur. En á hinn bóginn verður að líta svo á, að nokkur rekspölur komist á þetta brúarmál, að það færist nær takmarki sínu, verði frv. samþykt, og þegar litið er á það, að þetta er mannskæðasta áin á landinu, þá verður það að teljast sanngjarnt, að þingið, að minsta kosti, gefi von um brú á hana áður en langt um líður. Eg skal geta þess, að á síðustu 200 árum er talið, að 40 menn hafi farist í ánni, og er það ekki lítill skattur á svo fámenna þjóð, og virðist vel þess vert að leggja mikið fé í sölurnar til að koma í veg fyrir frekari slys. Eg átti heima í Vík í 12 ár, og á þeim árum fórust 4 menn í ánni. Rétt áður en eg fluttist þangað, höfðu 2 menn druknað í henni. Eins og eg gat um áðan, get eg hugsað mér, að einhverjir háttvirtir deildarmenn muni ekki vilja greiða frv. atkvæði, vegna þess, að það yrði aðeins pappírslög. Þetta er rétt, en þó mundu slík lög færa brúarmálið nær takmarki sínu og gera héraðsbúa öruggari, þar sem þeir þá ættu von á hjálp áður en langt um liði. Enn er ótalin sú ástæða, að Skaftfellingar hafa hingað til fengið mjög litið úr landsjóði; Skaftafellssýsla hefir, af því hún er einna afskektasta sveit landsins, orðið mjög út undan í fjárveitingum. Eg vona nú, að hv. þm. játi það, að krafa sú, er frv. felur í sér sé sanngjörn og mun eg því eigi fara mikið fleiri orðum um málið meðan það mætir ekki andmælum. Eg sé ekki ástæðu til að skipa nefnd til að íhuga þetta frv.; málið er svo einfalt og auðskilið, að vart er þörf á að rannsaka það. En þó mun eg ekki leggja á móti nefndarskipun, ef hv. deildarmenn álíta hana æskilega.

Eitt er þó enn, sem eg vildi geta um. Mér hafa borist áskoranir frá á annað hundrað kjósendum í Skaftafellssýslu um að fara fram á fjárveitingu til brúarinnar á þessu þingi, en það sá eg mér ekki fært, þó eg teldi það auðvitað æskilegast. Eg get getið þess, að þó að áskoranir hafi aðeins komið úr Skaftafellssýslu þá er brúarmálið engu síður áhugamál hálfrar Rangárvallarsýslu, því að þeir eiga afar oft leið yfir ána. Í þessari áskorun er það meðal annars tekið fram, að á tveim síðustu árum hafi áin grafið sig svo mikið niður, að útlit sé fyrir, að hún verði ófær meiri part ársins. Skal eg svo ekki orðlengja þetta meir, en vona að frv. fái að ganga til 2. umræðu.