15.03.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 681 í B-deild Alþingistíðinda. (402)

92. mál, brúargerð á Jökulsá

Lárus H. Bjarnason:

Ef forseti skildi fyr en skylli í tönnunum, þá mundi hann skilja ofanígjöfina, sem hann fékk hjá hv. þingm. Ísafj.kaupst. Og skal eg að svo mæltu leyfa mér að víkja aftur að málinu, sem fyrir lá, brúargerðinni á Fúlalæk. Má vel vera og enda líklegt, að brúargerðin sé nauðsynjamál, en engu að síður verður að athuga öll atriði, sem að henni lúta, áður en tekin er ályktun um hana.

Eg hefi enn ekki átt kost á að kynna mér ítarlega fjárlagafrumvarp það, er stjórnin lagði fyrir þingið, en heyrt hefi eg haft eftir manni, sem átti eitthvað við fjárlögin, að tekjuáætlunin um einn liðinn að minsta kosti sé mjög ískyggilega há. Og væri það enn ein ástæða til að fara hægt að ályktunum um gjaldahækkanir. Eg vona því, að nefnd verði sett í málið, að umr. lokinni, án nefndar má ekki ljúka máli, sem hefir í för með sér 70—80 þús. kr. kostnað fyrir landssjóðinn. Og skal eg svo ljúka máli mínu með því, að benda háttv. vini mínum þm. Ísfirðinga á, að honum gleymdist að tilgreina höfundinn að fyndninni, sem hann kastaði fram í lok ræðu sinnar. Það lá ekki við, að gusan úr forsetastólnum áðan kollvelti nokkrum.