15.03.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 685 í B-deild Alþingistíðinda. (407)

92. mál, brúargerð á Jökulsá

Steingrímur Jónsson:

Það er ekki rétt, að þó frumvarp þetta verði samþykt nú á þinginu, að með því sé gefið loforð um að fé verði veitt á næsta fjárhagstímabili. Brúin á Jökulsá í Öxarfirði hefir verið tekin sem samanburðardæmi, en hún var samþykt á aukaþinginu 1902 og veitt fé til hennar á þinginu 1903.

Bæði eru þessar tvær ár varla samanberandi og svo hafði þessi brú verið á dagskrá þingsins um tuttugu ár, og var komið svo langt, að verkfræðingur rannsakaði brúarstæðið 1896 og var lögð fram nákvæm áætlun 22. maí 1897, og var þá ekki sæmandi fyrir þingið að draga málið lengur.

Vegalögin voru samþykt 1894 og endurskoðuð 1907. Í því liggur ákveðið loforð um ákveðna vegagerð, sem kostar afarmikið fé, og hefir þingið ekki tekið nærri sér að fullnægja ekki þeim loforðum.

Það er því ekki nauðsynlegt að veitt verði fé til brúargerðarinnar á næstu fjárlögum, þó frumvarp þetta verði samþykt nú, en á hinn bóginn er það sjálfsagt, að þessi á sé brúuð svo fljótt sem verða má.