25.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 903 í B-deild Alþingistíðinda. (778)

120. mál, farmgjald

Gunnar Ólafsson:

Eg skal ekki vera langorður nú. Hv. 3. kgk. þm. gat þess, að hann væri mótfallinn frumvarpinu, og það var okkur flestum kunnugt áður. Hann tilgreindi þær ástæður til þess, að það væri svo illa úr garði gert og að það skapaði siðspilling í landinu, og mér heyrðist hann jafnvel vera mótfallinn nefnd. En það hefir verið tízka hér í deildinni, að frumvörp, sem gallar eru á, hafa verið sett í nefnd, til þess að ná af þeim göllunum. Ef þessar aðfinslur hins hv. 3. kgk. þm. (Aug. Fl.) hafa verið gerðar í því skyni að laga frumv., þá geta þær hafa verið réttmætar og eðlilegar. Mér dylst ekki, að gallar eru á frumvarpinu, enda er það eðlilegt, þar sem hér er um mikla nýjung að ræða. En að segja, að ekki eigi að leiða slíkt í lög, af því að ekkert slíkt sé til áður, er með öllu rakalaust. Og að frumvarp þetta geti orðið til siðspillingar þjóðinni, er ekkert nema grýla. Það er vitaskuld, að alt tolleftirlit er hér erfitt, og að það er hugsanlegt, að einhverju verði skotið undan, sem enginn tollur verði greiddur af, en að það geri frumvarpið óaðgengilegt fæ eg ekki með nokkru móti skilið. Það útaf fyrir sig geta ekki verið mótmæli gegn frumvarpinu. Eg veit ekki til, að sett séu lög, sem ekki eru að einhverju leyti brotin. Hitt er annað mál, að það er misjafnt, hve mjög lög eru brotin. Þetta frumv. gefur ekki meiri ástæðu til að óttast um, að það verði brotið, en þau tolllög, sem nú gilda og væntanlega gilda fyrst um sinn. Eg skal taka það fram, að skipsskjölin eiga að bera það með sér, hvaða vörur til landsins eru fluttar, og útgerðarmönnum skipanna er það áhugamál, að rétt sé greint frá stærð og þunga hverrar vörutegundar, sem á þeim er flutt. Hitt er annað mál, hvort það sé rétt að ná í skatta til landssjóðs á þennan hátt. En öllum ber saman um, að á einhvern hátt verður að ná í fé í landssjóð, og það er líka víst, að hvaða leið sem farin verður verða ekki allir ánægðir. Það er því ekki annað ráðlegt en að taka þessu frumvarpi vel og sæmilega, setja það fyrst og fremst í nefnd og gera það svo aðgengilegt sem kostur er á.