25.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 906 í B-deild Alþingistíðinda. (781)

120. mál, farmgjald

Ráðherra (Kr. J.):

Þetta frumvarp er að mörgu leyti áþekt frumvarpi því sem var fyrir þessari hv. deild á síðasta þingi. Það er ekkert annað en venjulegt tolllagafrumvarp, sem gengur í þá átt, að tolla flestar vörutegundir sem hingað flytjast, þvert ofan í þá reglu, sem vér hingað til höfum verið að berjast við að halda, að sið stórþjóðarinnar ensku, að hafa sem fæstar vörutegundir tollaðar. Nú, þegar farið er fram á að leggja toll á hverja vörutegund að kalla má, hlýtur að leiða af því svo mikið eftirlitsstarf, að óyfirkvæmilegt verður fyrir sýslumenn og lögreglustjóra, og mér hefir litist svo til að bæta mundi þurfa við 2—300 nýjum embættismönnum (?. tollheimtumönnum) ef að framkvæmd laganna á að geta orðið í nokkru lagi. Það er ekki til nokkurs að ímynda sér að hægt sé að láta þetta starf lenda á lögreglustjóranum. Eg segi þetta ekki til þess að fella lagafrumv. nú þegar, heldur til þess að benda nefndinni á þetta atriði, sem hún þarf að taka til rækilegrar íhugunar. Eg býst við að málið gangi til 2. umræðu og nefnd verði sett í það, og sú nefnd kemur væntanlega fram með nefndarálit. Hvort eg muni geta veitt máli þessu fylgi mitt síðar, get eg ekki sagt um á þessu stigi málsins; það fer eftir því, hvort nefndinni tekst að sníða af því þá annmarka, sem eg tel á því vera. Mér mundi lítast betur á málið, ef frumv. þetta væri eitthvað í þá átt að skapa lestargjald, eins og stefna þess var á síðasta þingi; mér þykir frumvarpið hafa versnað stórum síðan þá. —

Enginn hefir hugmynd um, hvað miklar tekjur muni fást inn eftir frumvarpi þessu. Eg hefi spurt þm. í hv. neðri deild um það, en enginn hefir getað svarað því. Sumir telja líklegt, að af því muni fást 200 þús. kr., aðrir 180 þús. kr. Þegar eg svo hefi spurt þá, á hverju þeir byggi það, þá hafa þeir ekkert svar getað gefið. Það væri þó gott að vita, hvað frumvarpið muni gefa í aðra hönd, og að því vildi eg leiða athygli nefndarinnar. Takist nefndinni að gera frumvarpið einfaldara og aðgengilegra, sérstaklega að því er kostnaðinn snertir, og að von væri um að landsstjórnin gæti framkvæmt lögin, þá mun eg ekki amast við því.