25.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 907 í B-deild Alþingistíðinda. (782)

120. mál, farmgjald

Steingrímur Jónsson. Eg vildi benda á við 1. umræðu dálítið atriði, sem kom í ljós í ræðu háttv. þingm. Akureyrar, sem ef til vill mætti kalla hina pólitísku hlið þessa máls. Eg tók eftir því, að fyrir honum leit svo út, sem að nýlega hefði versnað fjárhagur landsins; nú væri hann athugaverður og að það væri samróma álit allra að eitthvað þyrfti að gera til þess að rétta hann við. Nú er komið annað hljóð í strokkinn en var, þegar rætt var hér í deildinni um annað mál, sem að margra skynsamra manna dómi var gott, lítið bjargráð til viðreisnar fjárhagnum. Eg get nú reyndar skilið það vel, því það hefir sannarlega orðið breyting til hins verra, komið dálítið sig í ófarnaðar áttina við aðferð háttv. neðri deildar í gær, þessa aðferð, sem ekki verður varin og ekki skýrð öðruvísi en að atkvæðagreiðslunni þar hafi stýrt ósjálfráður ofsi einstakra manna.

Svo er annað í ræðu þessa þingmanns, sem eg vildi vekja athygli á. Það var eins og að hann vildi benda oss á, að það væri ekki annað fyrir hendi en að samþykkja þetta frumvarp hér sakir fjárhagsins; enda mun hafa verið teflt á þá leið af háttv. neðri deild í gær, að ekki væri um annað að gjöra en samþykkja frv. Því ber svo undarlega saman, að bannlagafrestunin var drepin þar í gær, og þetta frumvarp kemur til 1. umræðu hér í dag. Þessi ummæli sín studdi hann með því að slá á þann strenginn, sem viðkvæmastur er í brjóstum manna, ættjarðarástina. Hann sagði, að nú ættu menn að sýna ættjarðarást sína með því að samþykkja þetta frumvarp. Eg held eg verði aldrei haldinn því ofurmagni ættjarðarástarinnar, að eg fari að samþykkja það óbreytt. Þetta frumvarp, sem er engu líkara en að það væri draumórar hálf, vitlauss manns. Eg mun aldrei greiða því atkvæði mitt. Það er, ef nokkurt vit er í því, ekkert annað en margbrotin tollskrá, svo margbrotin að hún jafnast að því leyti á við tollskrár þeirra landa, sem leggja toll á allar vörutegundir eða nálega það. Það væri nú reyndar sök sér, ef svo væri, en hér er lagt á vörurnar af hreinu handahófi, vörurnar tollaðar með umbúðum o. s. frv. Væri um hreinan verðtoll að ræða, mætti deila um málið á skynsamlegum grundvelli. Eftirlitið yrði þá t. d. mun léttara. Það lítur helzt út fyrir, að þeir menn, sem borið hafa frumvarp þetta fram, hafi aldrei séð skipsskjöl, „Connossement“, því það er eins og menn haldi að það sé hægt að telja þar saman saumnálarnar og títuprjónana og hvert einasta smá atriði. En þessi skjöl eru næsta ógreinileg, það þekkja þeir sem einhverntíma hafa haft þau milli handa. Þrátt fyrir þetta er eg þó með því að málið sé sett í nefnd og er samdóma háttv. 5. kg.kj. að bezt sé að vísa því til tolllaganefndarinnar. Ástæðan til þess að eg vil vísa því til nefndar er þó ekki sú, að eg búist við að eg muni greiða frumvarpi þessu atkvæði mitt, heldur að eg hygg að nefndin kunni ef til vill að finna leið á svipuðum grundvelli til að fylla tekjusvang landssjóðs og bæta úr þeirri skyssu, sem neðri deild varð á í gær.

Að endingu vil eg að eins víkja nokkuð að því sem háttv. þm. Akureyrar sagði áðan. Hann tók það fram, að nú væru farin að verða stórkostleg tollsvik á kaffi, sykri og tóbaki. Ef hann veit það, þá ætti hann að upplýsa það. Eg hefi haldið, að ekki væri mikil brögð að því, nema ef til vill á vindlum. Til þessa álits míns hafa gefið ástæðu þau svik, sem upp hafa komist hér í Reykjavík um tollsvik á vindlum. Mér þótti leitt, að háttv. þm. skyldi kasta þessu hér fram í deildinni án þess að rökstyðja það að nokkru. Því ef svo er, að farið er að svíkja toll á tryggustu gjaldstofnunum, sem hingað til hafa verið, þá álít eg miklu nær að gjöra tilraun til að kippa því í lag, heldur en að vera að semja ný tolllög.