25.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 911 í B-deild Alþingistíðinda. (784)

120. mál, farmgjald

Ráðherra (Kr. J):

Það hefir alveg verið gengið framhjá því, sem mér sýnist aðalatriðið í þessu máli, nl: hve miklir örðugleikar mundu verða á framkvæmd laganna. Það er bent á þetta í bréfi frá Kaupmannaráði Reykjavíkur og skal eg með leyfi forseta lesa upp kafla úr því bréfi, hér er það berum orðum tekið fram að lögin verði óframkvæmanleg, verði þau samkvæmt tillögum frumvarpsins. —

Þeir háttv. þingmenn, sem hafa talað, hafa alveg gengið framhjá þessum agnúa, en þetta er aðalagnúinn. Það er hægðarleikur að ákveða skatta með lögum, en hitt er erfiðara að sjá um það, að skattarnir komi inn. Til þess að geta framfylgt þessum lögum, þyrfti líklega að setja 2—3 hundruð tollgæzlumenn, ef vel ætti að vera. Eg get sem gamall embættismaður bent á það, að það er ófært að bæta því á störf lögreglustjóra að innheimta þetta gjald.