25.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 915 í B-deild Alþingistíðinda. (786)

120. mál, farmgjald

Gunnar Ólafsson:

Það sem. hæstv. ráðherra sagði var mest til þess að leiðbeina væntanlegri nefnd í þessu máli og álít eg það þakka vert. En hinsvegar get eg ekki fallist á þá skoðun hans, að fjölga þurfi tollgæzlumönnum eins mikið og hann hélt fram. Ef gætt er að því, hvernig tollar eru innheimtir nú, þá held eg, að þessi gjöld mætti innheimta alveg á sama hátt. Eins og allir vita, er skipstjórum og afgreiðslumönnum gert að skyldu að afhenda skrár yfir þær vörur, sem skipin flytja. Eftir þessum skrám tekur tollheimtumaður tollana og lætur kaupmenn gefa drengskaparvottorð um það, að hann hafi ekki fengið aðrar tollvörur en þær, sem tilfærðar eru á skránni. Þannig hefir þetta verið um langan tíma, og gefist vel. Að vísu munu nú tollsvik vera farin að eiga sér stað lítilsháttar, en það munu ekki vera mikil brögð að því, og hjá slíku mun aldrei verða komist til fulls. Eg sé ekki betur en að alveg sömu aðferð mætti hafa við innheimtu farmgjaldsins. Skipstjóri eða afgreiðslumaður skipsins afhendir tollheimtumanni samrit af farmskránni og eftir henni tekur tollheimtumaður gjaldið. Eg skil ekki að þurfi að fjölga tollgæzlumönnum þessvegna, en hitt er auðvitað, að störf lögreglustjóra aukast, er þeim er falið eftirlit með þessu. En þeir gera það ekki fyrir ekkert og geta fengið sér hjálp til þess eftir því sem þeir þurfa. Eg sé því ekki neitt á móti frumv. frá þessari hlið og hygg eg að margt annað geti verið meir athugavert við frumv. en þetta. Háttv. 4. kgk. þm. gerði mikið úr ókunnugleik þeirra sem hafa fjallað um þetta mál og gaf jafnvel í skyn, að þeir hefðu aldrei séð skipsskjöl. En eg vil benda honum á það, að á skipsskjölunum er einmitt tilgreind hver vörutegund eins nákvæmlega og hægt er. Þetta er gert vegna þess, að flutningsgjald er mjög mismunandi, það er t. d. ekki sama flutningsgjald af 100 pd. af korni og af 100 pd. af álnavöru. Af þessu leiðir, að skipstjóri og afgreiðslumaður verður að líta eftir því, að vörutegundirnar séu rétt tilgreindar. Enda er það svo, þótt háttv. 4. kgk. þm. hafi ekki veitt því eftirtekt, að á farmskránni eru, vörutegundirnar liðaðar sundur nákvæmlega, t. d. korn, járn, munntóbak o. s. frv. og einmitt í samræmi við það er upptalningin í frmv. með mismunandi farmgjaldi af hverjum vöruflokki. Svo það er ekkert að óttast frá því sjónarmiði.

Annað er miklu athugaverðara, og það er flokkunin. Það eru sjálfsagt skiftar skoðanir um það, hvernig eigi að flokka vörurnar. En þetta sem hæstv. ráðherra benti á í bréfi kaupmannaráðsins, að lögin séu óframkvæmanleg, held eg séu eingöngu öfgar. Þeir geta ekki rökstutt það á neinn hátt og hafa ekki leitast við það. En að slá því fram, að lögin séu óframkvæmanleg, og færa engin rök fyrir því, það er markleysa, og vona eg að væntanleg nefnd taki það ekki gott og gilt. Það er sjálfsagt að nefndin fari nákvæmlega yfir frumvarpið og reyni að bæta úr þeim göllum, sem á því kunna að vera, og að mínu áliti er það helzt flokkunin sem þarf umbóta við.

Það er einróma álit, að nauðsynlegt sé að auka tekjur landssjóðs á einhvern hátt, og af þeirri ástæðu mun eg ekki verða á móti þessu frumv.