25.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 918 í B-deild Alþingistíðinda. (788)

120. mál, farmgjald

Sigurður Stefánsson:

Það er að eins örstutt athugasemd, sem eg hefi að bera fram. Það hefir verið tekið fram, að tekjurnar af þessu gjaldi myndi verða nánda nærri eins miklar og gjört var ráð fyrir af flutningsmanni þess í neðri deild. Það mun verða mjög erfitt að gjöra nokkra ábyggilega áætlun um þetta, og það því síður sem e. d. hefir svo sem engan tíma til að athuga frumvarpið svo sem þyrfti. Annars er það nokkuð ónærgætnislegt af hv. n. d. að ætlast til þessað svona umfangsmikið mál geti fengið svo rækilegan undirbúning frá þinginu sem með þarf, er annari þingdeildinni gefst ekki kostur á að athuga það í nefnd nema einn, tvo daga; sýnir það eitt með öðru þá léttúð og kæruleysi, sem hér er í öllum fjármálum. Eg vildi nú samt sem áður, að nefndin, sem kosin verður, gjöri sitt ítrasta til að fá nokkra vitneskju um, hve mikið þetta farmgjald muni gefa af sér í tekjur.

Verði hægt að sýna, að tekjurnar af því verði stórum minni en látið hefir verið í veðri vaka, þá getur svo farið, að á suma renni tvær grímur um það, hvort rétt sé að setja þetta lagabákn á laggirnar og hætt við að þá verði lítið úr því högginu, sem hátt var reitt. Stjórninni bar að undirbúa þetta mál, en hún gjörði það ekki og vanrækslu hennar er það ekki alllítið að kenna, hve illa verður í garðinn búið með tekjur landsins á næsta fjárhagstímabili.