06.05.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 919 í B-deild Alþingistíðinda. (789)

120. mál, farmgjald

Framsögumaður (August Flygenring):

Eg skal fyrst leyfa mér að geta þess, að til nefndar þeirrar sem kosin var í tollfrumvarpið og farmgjaldsfrv. hefir verið vísað frumvarpi til laga um gjald af póstböglum.

Við höfum ekki komið fram með neitt nefndarálit í þessu máli, af því að við lítum svo á, að það standi og falli með farmgjaldinu. Ef farmgjaldið kemst að, þá er þetta sjálfsagt, en ef farmgjaldsfrv. fellur, sem eg vona, þá verður um þetta frv. það sem kallað er það sofni í nefnd. Það verður ekki útrætt, og á þá ekkert erindi lengra. Því næst skal eg leyfa mér að benda á prentvillu, sem er í nefndarálitinu. Þar standa 20,000 standard innan sviga yfir innfl. vörur í skýrslunni yfir þær, í stað þess að þar eiga að vera 2,000.

Eg vil þá víkja máli mínu að farmgjaldinu. Í nefndarálitinu er áætlað, að til landsins flytjist 2000 standard af trjávið á ári og er sú upphæð sett eftir upplýsingum, sem einn elzti og helzti trjáviðarsalinn hér í bæ hefir upplýst um, en annars eru áætlanir nefndarinnar ýmist bygðar á upplýsingum frá fjármálaskrifstofu stjórnarinnar eða á verzlunarskýrzlunum frá 1908. Þar sem sést hafa augljósir gallar á upplýsingum frá fjármálaskrifstofunni, höfum vér farið eftir verzlunarskýrslunum að mestu leyti. Áætlunin yfir innfluttan smálesta fjölda til landsins er bygð mest á því, að það er reiknað út eftir útsöluverði, og getur því ekki verið nákvæmt. En það eina sem má byggja á, að sé nokkurn veginn rétt, eru vörur, sem ekki eiga að verða gjaldskyldar. Eg ætla samt að áætlunin fari ekki langt frá lagi.

Fjármálaskrifstofan hefir áætlað að lögin mundi gefa af sér 100 þúsund krónur, en eg get ekki skilið, hvernig hún hefir fundið það út.

Í 1. flokki er mikið af þungavöru, sem nefndin getur ekki gizkað á hvað verður. Þar eru alls konar glervörur, sem einu nafni eru kallaðar Faience, það er gips, sápa, tjara o. fl., en aðgætandi er að af þessum vörum er lágt gjald. Ekki nema 2 kr. á tonni.

Fjármálaskrifstofan áætlar að 11 þúsund tonn flytjist inn af trjáviði, en það getur ekki náð neinni átt, þar sem gagnkunnugur kaupmaður telur það að eins 2000 standard. Eg hygg meira að segja að vafasamt sé að mikið flytjist til landsins nú síðustu árin.

Þá er önnur vörutegund, vefnaðarvaran eða manufacturvara svokölluð, telst þar með skófatnaður, höfuðföt, tvinni, garn o. fl.

Eg hefi reiknað út eftir verzlunarskýrslunum og telst til, að þessar vörur nemi 220 ton. Þessar vörur eru ekki mjög þungar móts við verðið, og hefi eg áætlað meðaltal 5 krónur fyrir pundið í þeim og getur varla verið að tala um, að pundið kosti minna í þeim upp til hópa.

Hér í er silki, sem vegur lítið í samanburði við verðið og margar aðrar afardýrar vefnaðarvörur úr ull, en svo er aftur að vísu ódýrt prentað léreft, gallað, sem kallað er stumpasirs. Er það mjög ódýrt en af því flyzt varla nema 2—3 tons.

Annars legg eg enga áherzlu á, hvað farmgjaldið gefur í aðra hönd, heldur á prinsipið, sem hér er um að ræða. Eg vona við getum flestir orðið sammála um þá grundvallarsetningu, að gjald eigi að leggja á munaðarvöru og eyðsluvöru, sem getur sparast eða horfið.

Það er föst viðtekin regla hjá öllum þjóðum, að leggja ekki skatta á þær vörur, sem auka framleiðsluna. En hvort þessi skattaleið gefur af sér 65 þúsundir eða 100 þúsund stendur á sama. Því meir sem það gefur í tekjur, því meiri er órétturinn að leggja það á, úr því það er principielt rangt og ósanngjarnt. Eg hygg að þessi óljósa hugsun, að koma innflutningstolli á þessa vöru, byggist sumpart á þeirri ímyndun að það verði til þess að efla aðra atvinnuvegi. Verði nokkurs konar verndartollar.

Í mörgum löndum er lagt á innflutningsgjald í þessu skyni, en þá stefnu getum við ekki tekið upp. Við höfum nóg að gera, að hugsa um okkar tvo aðalatvinnuvegi, kvikfjárrækt og fiskiveiðar. Eg álít að þjóð, sem hefir lifað af þessum tveim atvinnugreinum og getur aukið þær og bætt, en vantar fremur fólk, eigi ekki að leggja eða þvinga inn á nýjar brautir í atvinnumálum með verndartollum. Það væri að taka fóðrið frá feitu kúnni og gefa hinni mögru, enda vona eg að þessar atvinnugreinar verða framvegis happasælli en ýmsar aðrar.

Auk þess er á það að líta, að þessu frumvarpi er mjög flaustrað af. Flokkun er öll röng og af handa hófi.

Margir líta svo á, að þessir skattar séu ekki svo háir, en séu þeir rangir hver um sig þó litlir séu, þá verða þeir að einu stóru ranglæti þegar þeir koma saman, og því meira ranglæti, sem tekjurnar yrðu meiri.

Hér er ekkert tillit tekið til þeirrar vöru, sem við ekki getum verið án og ekki komið upp hér í landinu. Eg skal taka sem dæmi í 3. flokki akkeri og akkerisfestar, mótora og þakjárn. Þessa getum við ekki án verið og getum ekki búið til og þetta er við hliðina á dýrmætum málmum, tini, kopar, silfri og gulli.

En þetta er þó ekki það versta, því verra er þó, að af nauðsynjavörum á að greiða helmingi hærra gjald en af ávaxtavörum, eggjum, kálmeti, og legsteinum, sem „figurerar“ hér hvað við hliðina á öðru. Þetta er alt gert fjarska mikið af handa hófi.

Frumvarpið hefur þar að auki ýmsa galla, sem hver maður getur séð. Það er ákaflega ilt að greina sundur, hvað er skattskylt og eftir hvaða flokki. Í 4. flokki er alls konar matvara og nýlenduvara. Í 7. gr. er undanskilin alls konar kornvara. Skepnufóður er tollskylt samkvæmt 7. gr., en þó er hey undanskilið í 7. gr., það er tollfrítt.

Tómar tunnur eru tollskyldar, en komi þær utan um steinolíu eru þær ekki skattskyldar. Þetta er í „principinu“ rangt. Enn koma fyrir fjarska mörg vafasöm atriði. Hvað heyrir t. d. undir alls konar glysvarning? Í Danmörku er glysvarningi skift í fjölda margar „positioner“ til tolls.

En alt þess konar er afar vandasamt og ekki hægt að gera það nema með löngum undirbúningi.

Hv. þm. V.-Ísf. gat þess í gær, að kaffi- og sykurtollurinn væri ekki réttlátur vegna þess að hann lenti jafnt á fátækum og ríkum. Hann tók til dæmis að fátækur sjómaður með 10 manns í heimili brúkaði eins mikið kaffi og borgaði þarafleiðandi eins mikinn toll eins og vellaunaður embættismaður í Reykjavík. Þetta er nú fyrst og fremst ekki rétt, því að sá vellaunaði embættismaður mun brúka miklu meira af kaffi en maður, sem þarf að spara alt við sig. En sé hugsun og ásetning hv. þm. að varna því að gjöldin komi harðast niður á þeim fátæku mönnum, þá verður hann að finna alt aðra leið en felst í þessu frv., sem hér liggur fyrir. Því ef hann heldur að útgjaldaauki sá er það hefði í för með sér fyrir landsmenn mundi aðallega koma niður á þeim ríku mönnum, þá skjátlast honum stórlega. Það yrðu einmitt fátæku mennirnir, sem mundu finna mest til hans, þeir sem t. d. lifa á fiskiveiðum og þurfa að fá öll sín áhöld frá útlöndum. Eg skal fúslega játa að kaffi- og sykurtollurinn er ekki eins réttmætur og æskil. væri en þegar er um það að ræða að auka tekjur landsjóðs, þá álít eg réttara að fara þá leið, þar sem allir verða að leggja eitthvað af mörkum, heldur en að íþyngja einstökum stéttum og sízt þeim sem auka framleiðslu landsins en það gerir einmitt þetta frv. Hv. þm. V.-Ísf. sagði líka, að við ættum að reyna að leggja inn á einhverja gjaldaleið, þar sem næðist til fleiri til að greiða skattana. En það er misskilningur að þeim tilgangi verði náð með þessu frv. Með því næst aðeins til tiltölulega fárra, en aftur nær kaffi- og sykurtollurinn til allra. Þetta gjald hefir líka þann ókost, sem margoft hefir verið bent á, að við vitum ekki með fullri vissu, hvar það kemur niður. Kaupmaðurinn leggur það á þær vörur þar sem bezt er að ná því. Auk þess mundu kaupmenn ekki hækka útsöluverð vörunnar nákvæmlega um það sem gjaldið nemur, heldur „runda verðið af“ sem kallað er, þ. e. að hækka það upp í aðgengilegri upphæð. Við það borgar hver og einn sem gjaldið greiðir, hærra fyrir sjálfa vöruna, að frádregnu gjaldi en ella, og borgar hærri framfærslu en á kaffi og sykri, því það er orðin hefð hjá kaupmönnum að selja kaffi og sykur með áföllnum kostnaði að viðbættum tolli. Svo er enn eitt, sem eg set fyrir mig, og það er, að þessi skattaleið mundi verða þyrnir í augum útlendinga, þegar til þess kemur, að við förum að leita fyrir okkur með nýtt lán. Útlendir bankamenn, sem kunnugir væru tollpólitík annara landa, mundu sjá, að hér er lagt inn á braut, sem aðrar þjóðir eru horfnar frá fyrir löngu, og þeir mundu hugsa að þjóðin væri svo útörmuð, að hún treysti sér ekki til að ná inn viðunanlegum tekjum nema með því að leggja toll á allar mögulegar vörur — leggja á hreinustu neyðartolla. Annað er það, að slíkur tollur á öllum vörum mundi einnig verða þyrnir í augum þeirra manna, sem hugsuðu sér að reka stóriðnaðarfyrirtæki hér. Útlendingar, sem hugsa sér að leggja út í slík fyrirtæki, spyrja alt af fyrst, hvernig sköttum og tollum sé háttað í landinu. Það er ástæða til að taka tillit til þessa, því að sú framtíð er að öllum líkindum ekki fjarri, að útlendingar fari að gefa landinu meiri gaum en hingað til og leggja fé í fyrirtæki hér. Þeim mundi þykja það eigi alllítil kvöð að þurfa að greiða skatt af verkfærum, vélum, járnbrautarteinum eða öðru slíku, sem þeir flytja inn til að auka með framleiðslu í landinu, og það sem verra væri: Það mundi vekja hjá þeim óhug á þeirri þjóð, sem ekki hefði betra vit á að semja sína eigin tolla og skattalöggjöf en þetta.

Yfir höfuð get eg sagt það, að mér finst þessi tollpólitík kasta skuggalegum blæ á fjárhagsástandið í landinu, eg vil segja óþarflega ljótum blæ. Annars skal eg ekki þreyta hv. deild með lengri ræðu að sinni, Eg legg í móti frv. í heild sinni, vegna þess að með því er lagt inn á braut í tollmálum, sem eg er andstæður og sé engrar blessunar vonar af. Frv. er ósanngjarnt og ranglátt, og hefir engan kost, nema ef menn ef til vill kalla það kost, að dylja og fela þau gjöld, sem landsmenn eiga að borga til landsjóðs.