06.05.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 930 í B-deild Alþingistíðinda. (792)

120. mál, farmgjald

Lárus H. Bjarnason:

Háttv. þm. Akureyrarkaupst. vildi smeygja af sér og sínum flokki allri ábyrgðinni á fjárlögunum, yfir á hæstv. núverandi stjórn og minni hluta flokkinn á þingi, með því að hvorki stjórnin né minni hlutinn hefði gert nokkuð til þess að bæta fjárhaginn. Hann þóttist aftur á móti hafa haldið fram bezta bjargráði, þar sem er farmgjaldsfrumvarpið. En þetta er ekki rétt. Háttv. 3. kkj. hefir lýst því frumvarpi svo vel og rækilega, að eg þarf ekki að fara út í þá sálma. Eg vil aðeins undirstrika það, að meiri hluti nefndarinnar hefir rökstutt í áliti sínu ítarlega, að lítt hugsanlegt sé að frv. mundi geta gefið af sér meira en rúmar 60 þús. kr., og að sú upphæð mundi nálega öll ganga til tolleftirlits. Tekjuhalli sá, sem nú er á fjárlögunum, er hvorki að kenna hæstv. núverandi stjórn né mínum flokki eða milliflokknum, heldur hinum svonefnda sjálfstæðisflokki, — sem þrátt fyrir alt sparnaðarópið notar sér yfirtökin í sameinuðu þingi og n. d. til þess að hrúga gjöldum á gjöld ofan og kúgar þannig stjórnina, minnihlutann og þjóðina til að taka við fjárlögunum jafnómögulegum og fyrirsjáanlegt er nú þegar, að þau muni verða.

Var það hv. meiri hluti, sem ekki einu sinni vildi leyfa 1 árs frestun á aðflutningsbanninu. Og má því með sanni segja: „Öllu er snúið öfugt þó“ að því er til kemur ummæla hv. þm. Akureyrarkaupstaðar.

En það sem mestu skiftir í máli þessu er það, að frumvarpið er handahófskent og sérstaklega allsendis óframkvæmanlegt án gífurlegs tilkostnaðar til tolleftirlits. Því hygg eg að ábyrgð sú, sem hv. þm. Akureyrarkaupstaðar vildi leggja á okkur minnihlutamenn, muni reynast okkur harla létt.

Hv. meiri hluti ætti jafnvel að vera oss minnihlutamönnum þakklátur fyrir meðferð þessa máls. Hann mun hafa nógar syndir á baki sér samt, við kosningaborðið, þó að ójöfnuðurinn út af farmgjaldsfrv. gangi undan.