06.05.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 931 í B-deild Alþingistíðinda. (793)

120. mál, farmgjald

Ráðherra (Kr. Jónsson):

Eg vil leyfa mér að segja nokkur orð um frumvarpið almenns efnis. Eg sá það í upphafi, þegar er eg leit á þetta frumvarp — og það hefir lítið breyzt síðan — að það er með öllu óframkvæmanlegt — og eg tala hér af nokkurri þekkingu, sem gamall embættismaður. Það er með öllu óframkvæmanlegt með því lögreglufyrirkomulagi og þeirri embættaskipun, sem vér nú höfum. Og það er engin breyting gerð á þessu fyrirkomulagi, svo að hægt sé að framfylgja lögunum. Það er með engu móti hægt að leggja þau störf á lögreglustjórana, sem leiða af frumvarpi þessu, ef það verður að lögum. Þeir eru svo hlaðnir störfum fyrir, að þeir mundu með sanngirni geta færst undan að takast þau störf á hendur, sem frumvarpið ætlast til að á þá verði bætt. Það þarf ekki annað en líta á hina mjög svo margbrotnu og vafasömu flokkaskifting frumvarpsins til þess að sjá, hve erfitt alt eftirlit verður með því að slíkum lögum verði hlýtt og ekki farið í kringum þau. Frumvarpið var hátíð í hitt eð fyrra, hjá því sem það er nú. Lestagjald var miklu betra, eins og þá var farið fram á. Það á hver þingmaður að geta séð, að það er eigi samboðið þinginu að bjóða landstjórninni slík lög, sem eigi verður unt að framfylgja sæmilega.

Þá er þess að geta, að það hefir engin ábyggileg skýrsla komið fram, sem sýni, hve miklar tekjur muni fást eptir þessu frumvarpi, verði það að lögum. Það er ekkert annað en sundurlausar óábyggilegar og órökstuddar skýrslur, sem fram hafa komið. Eg held, að skýrslur þeirra, sem mæla mót frumvarpinu, séu mun ábyggilegri en skýrslur hinna, sem mæla með því. Þessi lög geta aldrei gefið nema óvissa von um, að bæta úr þeim tekjuhalla, sem nú er í fjárlagafrumvarpinu, en á þessu ber meiri hluti þingsins ábyrgð og hefir skyldu til að bæta úr því.

(Sigurður Hjörleifsson: Nei, við tökum því með mestu ró. Heimastjórnarflokkurinn ber ábyrgðina)

Háttv. þm. Ak. má trútt um tala og nefna ábyrgð. Sá flokkur, sem eg hefi talist til alt fram á þetta þing, hefir gengið svo frá fjárlögunum og fjáraukalögunum nú, að það er fullrar ½ milliónar kr. tekjuhalli alls á þessum lögum. Háttv. þm. Ak. (S. Hj.) virðist vera einn af þeim mönnum, sem ráðið hefir því mest, að frumvarpið um frestun bannlaganna var felt. Hann veit vel, að einn af beztu mönnum flokks þess, sem hann heyrir til, kom með frumv. um að fresta þeim lögum og að hann talaði mjög vel fyrir því, og færði svo styrkar ástæður fyrir sínu máli, að flestir þingmenn hér í deildinni féllust á þær. Ábyrgðina á falli þess frumvarps ber sá flokkur, sem háttv. þm. Ak. (S. Hj.) hefir starfað með á þessu þingi, og staðið framarlega í.

Háttv. þm. Ak. (S. Hj.) mintist eitthvað á stjórnarflokk, en eg kannast ekki við að það sé rétt, sem hann sagði í því sambandi. Hinn háttv. þm. hefir ekki treyst sér til þess að koma fram með vantraustsyfirlýsing til mín hér í deildinni, og hefir viljann þó ekki vantað, en hann veit vel, að hún mundi verða feld. Hinn háttv. þm. veit líka mjög vel, að vantraustsyfirlýsing til mín var feld í neðri deild, var feld með 13 atkv. gegn 12 og hann veit líka vel, að það er óhætt að telja 14 atkvæði móti henni þar í deildinni, því að forseti deildarinnar hefði greitt atkvæði gegn henni, ef hann hefði ekki setið í forsetastólnum.

Háttv. þm. Ak. (S. Hj,) talaði um, að þetta væri tilraun, sem þingið ætlaði og ætti að gera. En mér finst að það verði þó fyrst að afla sér einhverrar vitneskju um, hvort þetta er tiltækilegt ráð eða ekki, áður en það stekkur út í myrkrið með þetta frv. Og eg hefi fært full rök fyrir því, að frumvarpið er ekki framkvæmanlegt og eg mun greiða atkvæði móti frumvarpinu. Mun eg svo ekki fara fleiri orðum um málið. Eg hefi áður tekið greinilega fram, hvernig fjárhagur landsins horfir við. Þetta frumvarp mundi ekki bæta úr honum, þótt það yrði samþykt.