06.05.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 933 í B-deild Alþingistíðinda. (794)

120. mál, farmgjald

Gunnar Ólafsson:

Eg tók það fram áðan, að örlög þessa frumvarps væri auðsæ, svo að það er gagnslítið að tala mikið um það. Eg ætla samt að svara háttv. 4. kgk. þm (Stgr. J.) nokkrum orðum. Hann álasaði minni hluta nefndarinnar fyr það, að hann hefði ekki komið fram með fleiri breytingartillögur en raun er orðin á. Hér til er því að svara, að það var enginn tími til þess. Nefndin átti aðeins einn fund með sér og þar varð niðurstaðan sú, að skrifara hennar var falið að semja nefndarálit. Við heyrðum það fyrst lesið upp í gær og vissum ekki fyrr, hvað meiri hlutinn ætlaði að gera og við gátum ekki gert neitt, fyrr en við vissum það. Háttv. andstæðingar okkar, sjálfstæðismanna, hafa með öllu fordæmt frumvarpið, hefir ekki þótt það þess vert að nokkuð væri við það eigandi. En skrítið þykir mér samt eitt, og það er það, að háttv. 4 kgk. þm. (Stgr. J.) og jafnvel hæstv. ráðherra hafa það að mótbáru gegn frumvarpinu, að lögreglustjórar mundu neita að gera þau störf, er frv. heimtar af þeim. Ef þetta er aðalástæðan gegn frv., gef eg ekki mikið fyrir rök þau, sem færð eru gegn því. Og mér þætti gaman að sjá hópinn „gera skrúfu“ og neita að taka að sér þau störf, sem frumvarpið leggur þeim á herðar. Eg álít alls ekki rétt að bera slíkt fram.

Það hefir verið talað mikið um það, og háttv. 5. kgk. þm. (L. H. B.) hefir ekkert tækifæri látið ónotað til að tala um það með miklum þjósti, að hinn slæmi fjárhagur væri ekki minnihlutanum, heldur meiri hlutanum að kenna, og hann hefir ekki þreyzt á að senda fyrverandi stjórn hnútur fyrir, hve illa hún hafi búið alt undir í þessu efni.

(Lárus H. Bjarnason: Þingmaðurinn tekur aldrei mark á neinni skynsemi).

Ekki skynsemi hins háttv. 5. kgk. þm. Það væri ekki til ofmikils mælst, að hinn háttv. þm. og hans flokkur hjálpuðu til að laga hann og engum hvílir sú skylda meira á en núverandi stjórn, og háttv. 5. kgk. þm. er víst ljúft að aðstoða hana, þar sem hann tyllir sér svo mjög á tær við hana. Það ætti að vera hennar að reyna að bæta fjárhaginn. Það er lítil frægð að því að níða aðra, og þá einkum menn, sem eru hvergi nærri, en slíkt hefir hinn háttv. 5. kgk. þm. oft gert sig sekan um; að hinu er meiri frægð að byggja upp og bæta það, sem bæta þarf, og það ætti háttv. þm. (L. H. B.) að leitast við að gera, ef einhver mannræna væri í honum.

Þá harmaði háttv. 5. kgk. þm. mjög fall frumvarpsins um frestun bannlaganna og kendi meiri hlutanum um, að hann hefði ráðið því bana. Hinn háttv. þm. var þó í orði kveðnu helzt með því að fella það. Að minsta kosti vildi hann ekki greiða atkvæði með því. Honum hefir ekki þótt það „praktískt“ þá í svipinn. En hann hefir nú sýnt innræti sitt í þessu efni. Það hefði verið réttara, að hann hefði komið fram þá eins og hann kemur fram nú, komið fram hreint og beint og verið með frestun bannlaganna, svo sem hann sárlangaði til.