08.05.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 981 í B-deild Alþingistíðinda. (841)

164. mál, gufuskipaferðir

Framsögum. Steingrímur Jónsson:

Eg geri ráð fyrir, að eg þurfi ekki að vera langorður um þessa tillögu, því að í nefndarálitinu er gerð gerð grein fyrir aðalástæðunum, þó að það sé styttra en það hefði þurft að vera.

Eg skal taka það fram, að nefndin hefir leitt hjá sér ágreininginn um það, að hve miklu leyti Thoresamningurinn sé löglegur. Nefndin hefir ekki tekið það atriði til umræðu og hefir álitið það sér óviðkomandi. Aðalumræðu og athugunarefni nefndarinnar hefir verið hin almenna óánægja um land alt út af því, hvernig ferðunum 1910 og 1911 er hagað. Og þegar leitað er að orsökunum, þá var nefndin samdóma um það, að aðalástæðuna sé að finna í því, hvernig ferðunum er hagað skv. áætlunum skipanna, en ekki eins mikið í hinu, að ferðirnar séu of fáar. Það verður ekki séð að neitt samband eigi sér stað milli þessara tveggja félaga, sem njóta styrks til ferðanna. Það lítur út fyrir, að ferðaáætlanirnar séu gerðar alveg á sama hátt og áður, á meðan samkepni átti sér stað milli félaganna. Ferðunum er hagað svo ruglingslega, að þó að fjöldi ferðanna sé töluvert mikill, þá eru ferðirnar jafnvel óhentugri en þær hafa verið undanfarin ár, og þóttu þær þó ekki góðar þá. Þegar litið er á sambandið við útlönd eða ferðirnar milli Kaupmannahafnar, Englands og Íslands, þá eru ferðirnar í sjálfu sér viðunandi margar, 64 alls, fyrir utan Hamborgarferðirnar, en samt líður stundum heill mánuður eða jafnvel meira milli ferða. En svo koma aftur á móti stundum margar ferðir í sömu vikunni. Nefndin fær ekki séð, að neinir örðugleikar gætu verið á því, að fá reglubundnar ferðir einu sinni í viku eins og líka hafði verið lofað af málgagni stjórnarinnar í fyrra. Og þegar þingið veitti heimild til að gera samninga um ferðirnar fyrir mörg ár, þá var öllum hugfast, að með því kynnu að fást umbætur á samgöngunum, sérstaklega að ferðirnar yrðu reglubundnar. Það má vera, að eftir samningunum við félögin verði þess ekki krafist, að þetta verði lagað fullkomlega. En eftir ákvæðum þingsins 1909 var alveg sjálfsagt að heimta þetta, og virðist mér líklegt að félögin viðurkenni það. Það má byggja þessa kröfu á 2 ástæðum. Fyrst, að þegar samið er til 10 ára, þá liggur það í sjálfu sér, að það á að vera pláss fyrir þær umbætur á ferðunum, sem framfarir og aukin viðskifti á þessum 10 árum útheimta. Annars væri óforsvaranlega samið, ef það væri sleginn slagbrandur fyrir öllum kröfum um auknar ferðir, eftir því sem þörfin kynni að heimta. Það þarf ekki annað en gæta að, hve mikið ferðirnar hafa aukist á næsta 10 ára tímabili á undan. Hin ástæðan er sú, að tillag til ferðanna var aukið úr 40 þús. kr. í 60 þúsund. Þetta er aðalástæðan til að krefjast umbóta og samþykkja tillöguna, sem hér liggur fyrir. Nefndin fær ekki séð, að með því sé gengið nærri stjórninni eða félögum þeim sem í hlut eiga. Stjórnin er skyld að kippa þessu í lag sem bezt hún getur, og það hlýtur að vera í interesse félaganna, að uppfylla kröfur landsmanna, til þess að geta haldið hylli þeirra og viðskiftum.

Þá er annað atriði, ef til vill ekki minna vert, hvernig skipin eru. Þegar rætt var um þetta mál á þingunum 1907 og 1909, þá var einna mest talað um það, að við þyrftum að fá betri skip, hraðskreiðari skip, og útbúin með þeim þægindum, sem svöruðu til kröfu tímans, ekki sízt með tilliti til þess að ætla má að Ísland eigi framtíð fyrir höndum sem túristaland. Eg skal fyrst snúa mér að sameinaða félaginu. Það hefir nálega eingöngu gömul skip, nema Botnía er nýleg. Skipin voru góð og sterk, en eru að verða of gömul. Þó að þau séu sem stendur viðunandi, þá verða ekki mörg ár þangað til þau geta ekki talist það lengur. Ekkert þeirra er gott til frambúðar nema Botnía; hún er gjaldgeng enn til nokkurra ára. En þegar litið er til Thorefélagsins, þá hefir það enn þá lakari skipakost. Það verður ekki sagt, að félagið hafi nema eitt reglulegt farþegaskip, nfl. Sterling. Það er látið heldur vel af þessu skipi, sagt að það sé gott skip og þægilegt. En það er mikið spursmál, hvort það er til frambúðar, enda er það þegar orðið kringum 25 ára gamalt, að því er sagt er. Eg þekki ekki þetta skip. En hin Thoreskipin þekki eg öll, og þau geta alls ekki heitið viðunandi farþegaskip. Ingólfur var þangað til í fyrra aðeins flutningaskip, en er sterkt skip. Þá var sett káeta í hann fyrir nokkra menn og liggur það í hlutarins eðli, að slíkt skip getur ekki svarað til tímans kröfu sem farþegaskip. Þó er þetta eina skipið frá þessu félagi, sem Norðurland fær að sjá sem farþegaskip.

Um strandferðaskipin er það að segja, að þau eru ekki í fullu samræmi við þau loforð, að bátarnir skyldu ekki síðri en „Skálholt“ og „Hólar“, en það er enginn vafi á því að bátar þessir eru lakari, bæði minni skip og farrými annars og þriðja flokks langtum minni og ver fyrir komið en var á hinum skipunum. Annars eru bátar þessir laglegir útlits, að minsta kosti sá þeirra, „Austri“, sem eg þekki. Hvort þeir eru eins sterk og örugg skip og „Skálholt“ og „Hólar“, get eg ekki borið um. Loks er báturinn, sem gengur fyrir Suðurlandi. Hann fullnægir vafalaust ekki þeim kröfum, sem áskilið var eftir samningnum. Það er lítið flutningaskip, og seint í förum og auk þess farþegarúm þar af skornum skamti. Eg álít það lífsskilyrði, að áskorunum til stjórnarinnar í þessu efni verði fylgt, og félögunum ættu engin vandkvæði að vera að því, að bæta úr þessum göllum, ef þau vilja standa við samninga þá, sem þau hafa gjört. Allir vita að sameinaða gufuskipafélagið er svo skipum búið, að þar þarf ekki að leggja fingurna á milli, og ef Thorefélagið hefir sótt eftir þessum ferðum, hefir séð sér hag í að annast siglingarnar, þá hefir það hlotið að sjá fram á, að það yrði að bæta um skipakost.

Hið þriðja atriði, sem nefndin hefir fundið ástæðu til að athuga, eru ferðirnar kringum landið. Út á ferðir strandferðabátanna hafði nefndin ekkert verulegt að setja. Ferðum þeirra 1910 var hagað eftir gamla laginu. Þó telur nefndin það æskilegt, að ferðir þeirra byrjuðu dálítið fyr. Samningurinn virðist ekki vera neitt í vegi fyrir því, en þetta er aðeins bending til stjórnarinnar frá nefndinni. Til stórra bóta álítur nefndin hafa verið hringferðir þær kringum land, sem „Austri“ fór í fyrra, og henni er það áhugamál að þeim verði haldið í sama horfi og ekki spilt, eins og nú lítur út fyrir að eigi að fara að gjöra. Á áætluninni í ár hefir verið skotið inn ýmsum viðkomustöðum, en á alt annan hátt en nefndin hafði hugsað sér. Þannig hefir verið skotið inn 3 stöðum á Austfjörðum nálægt Seyðisfirði og gjört ráð fyrir viðkomustað á Húnaflóa, og auk þess Sauðárkrók. Ef báturinn á að fara að koma við hér og hvar, þá fer ekki að verða sama gagn og áður að ferðunum, sem sé það, að fá fljótar ferðir kringum landið. Nefndin vildi að sama fyrirkomulag hefði haldist og í fyrra með 2—3 viðkomustöðum í viðbót, þeim sem fjarlægastir væru frá aðalviðkomustöðunum, sem lengdi þó ekki umferðatímann mjög mikið. Nefndin í þessari deild hefir lagt mesta áherzlu á þetta, en ekki á viðkomustaði strandbátanna yfirleitt; um þá hefir verið rætt í háttv. neðri deild.

Svo eru hinar ferðirnar kringum landið. Við þær hafði nefndin margt að athuga. Fyrst og fremst samband Reykjavíkur við Norðurland. Samkvæmt ferðaáætlun hins sameinaða 1911 fara skip þess 8 ferðir norðan um land á leið frá Kaupmannahöfn til Reykjavíkur, en ekki nema 4 ferðir norðan um land til Kaupmannahafnar, og allar þessar 4 ferðir eru farnar síðari hluta ársins, en millilandaskip Thore fara aldrei kringum land til Reykjavíkur frá Kaupmannahöfn og aldrei þá leið tilbaka. Þetta þótti nefndinni afar aðfinsluvert og verra en það hefir nokkurntíma verið á síðasta áratug. Mönnum í Norðurlandi þykir hart að geta ekki komist til Reykjavíkur svo mörgum mánuðum skifti, eða þá að þurfa að njóta til þess norskra skipa. Þar að auki hlýtur það að vera óþolandi fyrir félögin sjálf að norsk skip, eins og t. d. Flora, taki farþega frá þeim svo hundruðum skifti og flutning. Að því er snertir Thorefélagið, þá veit eg að það muni hafa ætlað að hafa skiftistöð á milli Reykjavíkurferðanna annarsvegar og Norðurlandsferðanna hinsvegar á Ísafirði. En þá varð gap þar á milli ferðanna, svo að ómögulegt var að nota þær, þær stóðust ekki á. Þetta þarf bóta með og það er hægðarleikur að koma þeim á. Það er meginatriðið, að félögin semji ferðaáætlanir sínar saman undir umsjón stjórnarráðsins, svo að samræmi sé í þeim. Það verða þau að gjöra, í stað þess að keppa og eyðileggja hvort annað, það var ekki meiningin með þessum 100 þús. kr., sem lögð eru til þeirra frá Íslandi og Danmörku.

Þá hefir enn verið fundið að því, að í ferðaáætlunum skipanna kringum landið og áætlunum strandferðabátanna sé ekki tekið tillit til þess, að á vissum tíma þurfi menn sérstaklega að komast ferða sinna, svo sem er um námsfólk í mentaskólann í Reykjavík, gagnfræðaskólann á Akureyri og kvennaskólana. Þingmenn þurfa að komast til og frá Alþingi, en fyrir því er ekki séð. Sjómenn og kaupafólk þarf á vissum tímum að fara af Suðurlandi til Austfjarða og til baka aftur. Það hafa komið fram kvartanir um það, að minna tillit hafi verið tekið til þessara þarfa árið 1910 og 1911, en áður hafi verið. Það sem einmitt vakti fyrir mönnum á síðasta þingi með kröfunum um Suðurlandsbátinn var það, að þá yrði bætt úr þessari þörf, en það hefir ekki orðið sem skyldi. Þá væri æskilegt að Suðurlandsbáturinn byrjaði ferðir sínar ¼ eða heilum mánuði fyr en nú.

Eg gat þess áðan, að ferðir millilandaskipanna væru óaðgengilegar að því er snertir sambandið við útlönd, en þær eru líka óaðgengilegar hvað snertir ferðir þeirra milli Reykjavíkur og Vestfjarða. Það mátti segja, að Vestfirðir hefðu áður góðar og tíðar ferðir. Nú er ekki því að heilsa lengur. Thoreskipin ganga nú oftast nær ekki lengra en til Stykkishólms, en ekki til Ísafjarðar, svo að oft líða langir tímar milli ferða héðan til Ísafjarðar; þannig var engin ferð þangað frá því í byrjun Desember og þangað til í byrjun Febrúarmán. Þetta má ekki svo til ganga með Ísafjörð.

Enn vil eg benda á, að það er hrapallegt að það skuli ekka vera nein miðsvetrarferð norðurfyrir landið, til eða frá útlöndum. Slík ferð mundi spara póstsjóði ekki litla peninga, auk þeirra þæginda sem er að því fyrir menn útum land að komið sé á hafnirnar fyrir norðan í Desember, í stað þess að fá póstinn allan með landpóstunum í janúar, eða láta senda hann til Austfjarða.

Þá var eitt atriði úr þingsályktunartillögu háttv. þingm. V.-Skaftfellinga, um viðkomu skipanna í Vestmannaeyjum, sem eg vildi minnast á. Eg er honum ekki sammála um það, að millilandaskipin eigi endilega að koma við í öllum ferðum í Vestmannaeyjum, en eg álít sanngjarnt að í Vestmannaeyjum, sem hafa mikla verzlun, væru fastákveðnar hæfilega margar viðkomur árið um í kring. Það er auðvelt fyrir stjórnina að sjá um það.

Eg skal svo ekki fjölyrða meira um þetta mál, vona að það sem eg hefi sagt nægi til að fylla út nefndarálitið og skýra hvað hefir vakað fyrir nefndinni, þegar hún kom með þingsályktunartillögu þá sem prentuð er á þingsk. 931. Aðalatriðið er þetta, að úr þeim ferðum, sem nú höfum við, verði gjörðar reglubundnar ferðir á viku hverri milli Reykjavíkur og útlanda, og í sambandi við það haganlegar hringferðir umhverfis landið. Með tillögum þessum álítum við, að ekki neitt sé gjört á hluta félaganna, eða stjórnar þeirrar sem nú er við völd, og alls ekki heldur stjórnar þeirrar sem frá fór. Annað lífsskilyrðið er, að skipin verði bætt á þá leið, sem eg hefi bent á.