12.07.1913
Efri deild: 7. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 60 í B-deild Alþingistíðinda. (1543)

39. mál, skipun læknishéraða

Guðjón Guðlaugsson, flutningsmaður:

Þetta frv. er bæði stutt og auðskilið og auk þess ekki ókunnugt hjer í deild, þar sem háttv. d. þóknaðist að stinga því svefnþorn á síðasta þingi og hefur það legið í dái síðan. En ekki hefur þörf fólksins á lækni getað dofnað fyrir það, og ekki hefur hugum manna orðið stungið svefnþorn eins og frv. Hvað eftir annað hefur verið leitað til þingsins um að stofna læknishjerað það, sem hjer ræðir um, og enu að nýju koma fram óskir mn það. Þetta ber vott um það, að læknisþörfin muni vera brýn og áhugi almennings á því sterkur.

Eg ætla ekki að þessu sinni að skýra frá hinum sjerstöku ástæðum, sem mæla með frv. þessu; jeg hef gert það áður, og gefst sjálfsagt kostur á því síðar.

Eg skal aðeins nefna þá almennu ástæðu, að það má fullyrða, að það er þjóðarvilji, að iæknum sje fjölgað sem mest. Það munu vera einu embættismennirnir, sem alþýða vill að sje fjölgað. Það vill því verða gremjuefni fyrir menn, þegar þeir sjá, að verið er að troða upp á þá ýmsum embættismönnum og öðrum opinberum starfsmönnum, sem þeim virðast alls óþarfir, en þeim er synjað um lækna. Menn ættu að geta skilið það, hvað sjúklingar taka út við það að ná ekki í læknishjálp, og enn sárara verður það fyrir þá, þegar þeir bera sig saman við aðra, sem eiga hægt með að ná í lækni. Sjálfur hef jeg ekki yfir slíku að kvarta, svo það er ekki af eigingirni eða fyrir mig, að jeg ber fram frv. þetta.

Það er sárt til þess að vita hve mikil olbogabörn Hrútfirðingar hafa verið og afskiftir með lækni; þeir eru jafnvel ver settir nú en áður, þrátt fyrir alla læknafjölgunina, og þrátt fyrir það, að stórum hefur hægst um fyrir íbúana í norðurhluta Strandasýslu með að ná í lækni.

Eg tel víst, að það muni þykja þörf að skipa nefnd í mál þetta, því að þótt þetta frv. sje ekki stórt nje margbrotið, þá eru fleiri samkynja mál á ferðinni í þinginu. Jeg ætla því ekki að þessu sinni að fara meira út í að tala um erfiðleikana við að ná lækni fyrir þá, sem búa í hinu fyrirhugaða læknishjeraði, nje heldur vegalengdir og þesskonar; mjer gefst sjálfsagt kostur á að skýra frá öllu þessu, þegar málið kemur úr nefnd.