12.07.1913
Efri deild: 7. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 62 í B-deild Alþingistíðinda. (1544)

39. mál, skipun læknishéraða

Guðmundur Björnsson:

Jeg hef ekki á móti því, að nefnd sje skipuð í þessu máli, því að jeg tel æskilegt, að þingið taki læknaskipunarmálið alt til nákvæmari íhugunar, en gert hefur verið á síðustu þingum.

Jeg get vel skilið í óskum manna að fá lækni í nágrenni við sig, þar sem erfitt er að ná læknishjálp. En þessir menn hugsa ekki út í það, að það sem mest liggur á í svipinn, er ekki að fjölga læknishjeruðum, heldur að fjölga læknum. Háttv. 3. kgk. þm. (St. J.) er kunnugt um það, að í hans sýslu eru tvö læknishjeruð læknislaus, og jeg sje engin tök á að útvega lækni í þau í ár, og líklega ekki heldur að ári, og er það þó mjög meinlegt, einkum fyrir Öxarfjarðarhjerað. Og það má búast við, að enn lengri bið verði á, að læknir fáist í hitt hjeraðið í þeirri sýslu, Höfðahjeraðið.

Þá sný jeg máli mínu að hv. 2. þm. N.-M. (E. J.). Í hans kjördæmi er Hróarstunguhjerað læknislaust, stórt hjerað og erfitt, og víða ekki auðhlaupið að ná í lækni, þótt hann sitji í hjeraðinu sjálfu, hvað þá, þegar hans þarf að leita út fyrir hjeraðið, að Brekku eða á Vopnafjörð.

Þá verður mjer litið til hv. 1. þm. Húnv. (Þ. J.); þar situr í vesturhlutanum roskinn læknir, bilaður að heilsu og svo heyrnarsljór, að í raun rjettri er hann alls ekki fær um að gegna læknisembætti, en það hefur ekki þótt fært að hann segði af sjer, því enginn fæst í staðinn, og hjeraðsbúar hafa þagað, talið betra að veifa röngu trje en engu.

Þá situr hjer hv. þm. V.-Sk. (S. E.). Honum er það kunnugt, að í Síðuhjeraði. er læknir farinn að heilsu, svo að hann sótti um lausn síðasta ár, en sat þó kyr árlangt fyrir min orð og hjeraðsbúa, því að engan var að fá í hans stað. Nú sækir hann um lausn af nýju, svo að þar horfir til vandræða, því að það vita kunnugir menn, að ekki er áhlaupaverk að ná í lækni af Síðu, annaðhvort vestur í Vík, eða austur í Hornafjörð.

Í Árnessýslu hefur ágætismaður sá, sem er læknir á Eyrarbakka, verið mjög sjúkur að undanförnu, og óvíst að hann geti gegnt læknisstörfum framvegis. En svo kveður ramt að læknafæðinni, að jeg hef ekki mikla von um, að læknir fáist þegar í stað í það góða og álitlega hjerað. Svona er ástandið og mætti margt fleira um það segja; það er því mesta þörf á að þetta mál komist í nefnd; jeg þykist þess viss, að niðurstaðan hjá þeirri nefnd muni verða sú, að meiri þörf sje á að fá nýja lækna, en ný læknishjeruð.