16.08.1913
Efri deild: 31. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 549 í B-deild Alþingistíðinda. (1926)

3. mál, fjáraukalög 1912 og 1913

Steingrímur Jónsson, framsögum.:

Það eru ekki miklar breytingar, sem nefndin ræður hv. deild til þess að gera við frv. þetta. Þær eru aðeins 8 talsins, og af þeim hafa 4 áhrif á gjöldin.

Tvær breytingar eru til hækkunar og nema þær báðar 30,300 kr., en tvær þeirra eru til lækkunar og nema þær 1166 kr. 67 au., og er því tillaga nefndarinnar, að hækka útgjöldin á frumv. frá því sem hv. Nd. gekk frá því, um 29,133 kr. 33 au.

Í athugasemdum stjórnarinnar við frv. er gerð all ítarleg grein fyrir fjárhagnum, og eftir þeirri áætlun er tekjuafgangur 144 þús. kr. eða rúmlega það. Þetta vil jeg leggja áherzlu á, til þess að sýna, að það sje forsvaranlegt að leggja fram fje á fjáraukalögunum. Og tekjuafgangurinn getur orðið meiri, þar sem vörutollurinn átti eftir þessari hálfs árs reynslu, sem fengin er, að gefa 50 þús. kr. fram yfir áætlun, og tekjuafgangurinn því að verða 190 þús. kr. Á þetta vildi jeg benda, til þess að hv. deildarmenn geti sjeð, að það sje forsvaranlegt að veita fje á fjáraukalögunum, því jeg tel forsvaranlegt að veita þar fje, þegar hægt er að benda á tekjuafgang, og þarf því ekki að taka ný lán.

Jeg skal þá víkja orðum mínum að brtill. nefndarinnar.

Fyrsta brtill. er um 300 kr. styrk til sjúklingsins Einars Guðmundssonar á Þórarinsstaðaeyri. Í nefndarálitinu er þess getið, hvernig sjúkdóminum er varið, að hann, þessi 9 ára drengur, sje máttlaus öðru megin. Eftir þeim upplýsingum, er nefndin hefur fengið, er talið líklegt, að hann geti fengið bata, ef að hægt sje að leita honum læknishjálpar í Danmörku, en foreldrar drengsins eru öreigar, svo það Er ekki tiltaksmál, að þeir geti staðizt þann kostnað, er leiðir af förinni, og varla yrði hann minni en 500 kr. Og það er sótt um þennan styrk í þeirri von, að það. sem ávantar fáist annarsstaðar að. Jeg get búizt við því, að einhverjir segi, að það sje skylda sveitarsjóðsins, að veita þennan styrk, en nefndin lítur svo á, sem það sje rjett, að landssjóður hlaupi hjer undir bagga. Það hefur líka verið stefna löggjafarvaldsins, að gera ekki slíka styrki að sveitarstyrkjum, ef unt er að komast hjá því. Þegar sjúkdóminum er svo háttað, að enginn viðbúnaður er hjer á landi til þess að bæta úr vanheilsunni, virðist rjett, að landssjóður hlaupi undir bagga, Og í öðru lagi má geta þess, að ef drengurinn er ekki kostaður af sveitinni, þá verður kostnaðurinn minni. Nefndinni hefur sem sje verið skýrt svo frá, að þá muni hann fá umbúðir o. fl. ókeypis (B. Þ.: Það er rjett) og kostnaðurinn þar af leiðandi minni. Að þessu athuguðu, virðist ekki neitt verulegt vera á móti því, að drengnum verði veittur þessi styrkur. En það gæti verið talsverð ástæða á móti því, ef þetta væri fyrsti sjúkrastyrkurinn, sem hjer væri um að ræða á þinginu; slíkir styrkir hefðu ekki verið veittir áður. Jeg hef aðgætt í þessu efni nokkur síðustu þing, og hafa verið veittir svipaðir styrkir á þingunum 1905, 1907, 1909 og loks 1911. Þá var Önnu Magnúsdóttur veittar 1000 kr. til þess að leita lækningar á ljóslækningastofnun Finsens. Alþingi virðist því, að minsta kosti hin síðustu 8 ár, hafa fylgt þeirri reglu, að veita slíka styrki til líknarstarfsemi, þegar svo hefur hagað til, að engin tiltök hafa verið að fá lækning við sjúkdóminum hjer á landi. Og í því tilfelli, er hjer ræðir um, hagar einmitt svo til, að engin tiltök er að lækna þennan sjúkling hjer heima.

Önnur brtill. nefndarinnar er við 4. gr., og er það aðalbreytingin. Sú breyting er um pósthúsið. Eins og kunnugt er, þá er hin mesta nauðsyn á því, að rýmka húsnæði það, er póststjórnin hefur til afnota. Þar er nú afgreitt bæði pósturinn og síminn, og hver sem kemur inn til símastjórans eða á landssímann, sjer strax, að húsnæðið er alveg óviðunandi og litlu betra, hvað pósthúsið snertir. Það er jafnvel skaði að því, að vera ekki búinn að byggja. Og nefndin lítur svo á, að bezt sje að byggja strax. Stjórnin setti upphæð til viðbótarbyggingar við pósthúsið á fjáraukalög, og ætlaðist til þess, að bygging þessi yrði 28 álnir meðfram Pósthússtræti og 34 álnir meðfram Austurstræti 20 álnir að breidd, en fjárlaganefnd Nd. feldi burtu fjárveitinguna, og ætlaðist til þess, að hún yrði sett á fjárlögin fyrir árin 1914 og 1915. En nú hefur fjárlaganefndin í þessari hv. deild borið sig saman um þetta efni við fjárlaganefnd Nd., og þær hafa orðið sammála um, að leggja til, að byggingin verði bygð strax, þótt þær hins vegar búist ekki við, að upphæðin verði notuð upp í ár, en það gerir ekki mikið til.

Öðru máli er að gegna um það, hvort það sje heppilegt, að bygging þessi verði bygð sem viðbótarbygging við pósthúsið, þar sem það nú er. Það, sem þar vakti fyrir nefndinni, er það, hvort ekki sje eins hagfelt, eða hagfeldara, að byggja nýtt pósthús annarsstaðar í bænum. Ef það yrði gert, þá fengi landsíminn alt gamla pósthúsið til afnota, og hefði þar gott og notalegt rúm, að minsta kosti fyrst um sinn, að því er landsímastjóri segir, og það losar úr tvíbýli, sem alt af fylgja ýmsir gallar. Það er talið svo, af byggingarfróðum mönnum, eftir því, sem nefndin hefur fengið upplýst, að byggja megi eins stórt hús, og þessi fyrirhugaða viðbótarbygging við pósthúsið, fyrir sama verð, ef bygt sje á Arnarhólslóð. Það þyrfti þá einum vegg, eða hluta úr vegg meira, en þeir segja, að það muni að minsta kosti svo miklu, hversu betra sé að byggja þar uppfrá.

Jeg vænti þess, að hin háttv. deild geti fallizt á þessa fjárveitingu, og sjái, að það dugar ekki lengur, að fresta þessu máli; það er beint tap bæði á húsaleigu og vinnu, því afgreiðsla póstsins útheimtir miklu meiri vinnu, af því hve óhentugt húsnæðið er.

Þá kem jeg að lækkunartillögum nefndarinnar.

Eins og háttv. þm. er kunnugt, þá var 1907, þegar ákveðið var að leggja símann austur að Garðsauka, ákveðið, að austursýslurnar skyldu leggja fram 20 þús. kr. til þessarar símaálmu, og átti Árnessýsla að leggja fram 12 þús. kr., en Rangárvallasýsla 8 þús. kr. Á þinginu 1909 voru framlög þeirra lækkuð um helming, svo framlag Árnessýslu varð 6 þús. kr. og framlag Rangárvallasýslu 4 þús. kr., samanber fjáraukalög 1908–1909, 3. gr., og þessar upphæðir voru sýslunum veittar sem viðlagasjóðslán, Árnessýslu 29/10 1903. og Rangárvallasýslu 15/10 1909. Svo líður og bíður til ársins 1912, að það var engin breyting gerð á þessu, en þá er samþykt að kaupa símann til Vestmannaeyja, og þá var þessi símalína jafnframt gerð að 1. flokks línu, og þá er farið fram á endurborgun á tillaginu.

Nefndin lítur svo á, að engin ástæða sje til að gefa eftir öll tillögin, heldur aðeins þá upphæð, er óborguð var, er síminn varð 1. flokks sími, en það er Rangárvallasýsla 3333,33 og Árnessýsla 2500,00 krónur.

Ástæðurnar til þess, að nefndin leggur þetta til, eru: í fyrsta lagi, að hún sjer ekki ástæðu til, að meira sje gefið eftir en óborgað var, er línan varð að 1. flokks línu, því þá fyrst fjekk sýslan nokkurn rjett til að biðja um eftirgjöfina, og í öðru lagi, að nefndin vill slá þessari reglu fastri fyrir eftirtímann. En það hefur mikla þýðingu, eða getur haft það, að því sje slegið föstu, að ef símalína sje gerð að 1. flokks línu, þá beri hlutaðeigandi hjeraði ekki endurgreiðsla á meiru en því, sem þá er óborgað af láninu, er breytingin fer fram. Þetta telur nefndin mjög sanngjarnt, og álítur, eins og jeg áðan sagði, að fjárveitingarvaldið eigi að mynda sjer hjer fastar reglur til að fara eftir. Og þótt línan frá Breiðumýri til Húsavíkur yrði gerð að 1. flokks línu, sem hún verður fyr eða síðar, þá dytti mjer ekki í hug, að fara fram á meiri endurgreiðslu en samkvæmt fyrirsagðri reglu. Jeg álít, að Þingeyjarsýsla ætti ekki rjett á að fá meira.

Um Patreksfjarðarsímann gildir alt annað. Það er viðurkent af öllum, að áætlunin hafi verið röng, og að sýslan hafi eingöngu átt að greiða 15 þús. kr. eftir því hvað síminn kostaði, en ekki 20 þús. kr., og því er endurgreiðsla þar sjálfsögð.

Þá leggur nefndin það til, í 5. brtill. sinni, að orðin „alt að“ komi framan við fjárveitinguna til brunngraftrar við Garðskagavitann. Vitavörðurinn þar og umsjónarmaður vitanna telja gerlegt, að grafa brunn við vitann, og telja æskilegt, að það verði framkvæmt og í því skyni er þetta fje veitt, 800 kr. Nefndin er þessu samþykk, en það liggur engin regluleg áætlun fyrir. Hjer er því að eins um tilraun að ræða, sem ef til vill hepnast, og ef til vill ekki, og því hefur nefndin viljað bæta þessum orðum inn í liðinn, til þess að sýna, að hún vilji ekki að meira fje sje veitt, en vonast eftir, að minna verði brúkað, ef tilraunin ekki hepnast.

Brtill. nefndarinnar við 5. gr. er aðeins leiðrjetting á prentvillu, er sumpart stafar alla leið frá stjórnarfrumvarpinu.

Við 6. gr. er engin brtill. frá nefndinni, en henni hefur þótt það rjettara, að taka í fram, að stjórnin eigi að fara varlega í greiðslur úr landssjóði, sem eigi eru fyrirfram heimilaðar. Nefndin viðurkennir, að það geti komið fyrir, að hagsmunir eða heiður landsins krefjist þess, að gripið sje til fjár, þótt ekki sje á fjárlögunum veiting fyrir því. En þetta er vitanlega mesta vandamál, og þar reynir á, að stjórnin sýni „conduite“. Það má ekki skilja orð mín svo, að nefndin vilji vita stjórnina fyrir þessar 2 smáupphæðir, þvert á móti er hún stjórninni sammála um, að hún hafi breytt heppilega (Hákon Kristofjersson: En þriðja liðinn?).

Þá er leikfimishúsið á Hvanneyri. Á fjárlögunum 1912 –13 voru veittar 2000 kr. til að byggja þetta leikfimishús. Að ekki var veitt meira fje, kom til af því, að þar lá fyrir töluvert efni, er var talið 2 þúsund kr. virði, og fjárlaganefndin og þingið leit svo á, að það mætti nota það í þessa byggingu, sem hægt væri að byggja fyrir 4000 kr. En reyndin hefur orðið alt önnur, leikfimishúsið hefur kostað kr. 2000 er veittar voru á fjárlögunum, 2000 kr. í efnisleifum og 3258 kr. 27 aura, sem farið er fram á að veittar verði hjer á fjáraukalögunum. Ef efnið hefur því alt gengið til hússins, hefur það kostað 7258 kr., 27 aura, svo það hlýtur að vera óvanalega gott og vandað leikfimishús, enda umframgreiðslan mikil og mjög athugaverð. Nefndin vill þess vegna bæta aftan við liðinn því skilyrði, að styrkur þessi verði ekki útborgaður, fyr en stjórnarráðið hefur fengið fullkomna skilagrein fyrir efnisleifum frá byggingu skólahússins á Hvanneyri.

Þá hef jeg minst á allar breytingar, er nefndin leggur til að gerðar verði við frumvarpið.

En svo er eitt atriði, er nefndin ræddi um, og það var 2. liður 9. gr. Nefndin lítur svo á, sem það geti ekki komið til mála, að „Det forenede Dampsskibsetskab“ hafi verið leyst frá samningi sínum um samgöngur hjer við land með vörutollslögunum frá síðasta alþingi. Nefndin lítur svo á, að Sameinaða fjelaginu beri að í hlýða lögum þessum eins og hverjum öðrum lögum, sem sett eru hjer á landi. En þar sem fjelaginu hinsvegar var íþyngt með gjaldi þessu, þá virðist nefndinni nokkur sanngirni í því, að fjelagið fengi þann kostnað endurborgaðan.

Samkvæmt samningi við Hið sameinaða gufuskipafjelag frá 7. ágúst 1909, leit innanríkisráðherra Dana svo á, að ekki mundi verða undan því komizt að endurgreiða fjelaginu farmgjaldið af kolum þeim, er það tæki hjer á landi handa skipum sínum, og hefur hann því gefið loforð um endurgreiðsluna, en þó með því skilyrði, að Íslandi stæði opinn vegur til þess, að láta dómstólana skera úr því, hvort fjelagið ætti rjett á því, að fá kolatollinn endururgoldinn, og skyldi fjelagið borga upphæðina aftur til baka, ef málið fjelli á það.

Að fella þessar 5000 kr. burt úr fjáraukalögunum, getur ekki komið til mála –það væri sama sem að segja, að við vildum ekki borga innanríkisstjórn Dana fje það, sem hún hefur lagt út fyrir oss. Auk þess níundi oss ekki haldast það uppi, þótt við vildum smokka oss undan greiðslu þessari, því að innanríkisráðherrann mundi telja sjer heimilt að halda eftir upphæð þessari af 60,000 kr. árgjaldinu frá Dönum. Enn bætist það við, að ráðherra vor mun hafa lofað að greiða fje þetta. En sjálfsagt er opinn vegur fyrir alþingi að höfða mál gegn Sameinaða gufuskipafjelagina, og vinnist það mál, þá verða þessar 5000 kr. að sjálfsögðu aftur borgaðar inn í landssjóð. Þess er að gæta, að það er ekki eingöngu um þessar 5000 kr., að ræða fyrir árið 1913, heldur og svipaða upphæð fyrir hin 6 árin, sem eftir eru af samningstímabilinu. Af því þetta veltur á allmiklu fyrir landssjóð, þá áskilur nefndin sjer rjett til síðar á þessu þingi að bera fram þingsályktunartillögu um málshöfðun gegn Sameinaða gufuskipafjelaginu, á þann hátt, sem bent er á í athugasemdum stjórnarinnar við fjáraukalagafrumvarpið. Þetta telur nefndin eðlilegustu leiðina í máli þessu. En áður en lengra er farið, mun hún þó taka málið til nánari athugunar en henni hefur enn gefizt kostur á, og fyrst að því búnu koma fram með ákveðnar tillögur.

Þá á jeg eftir að minnast á 2 erindi, sem nefndinni hafa borizt. Annað er frá stjórninni um endurgjald á álagi á Þönglabakkakirkju; hitt er gamall kunningi hjer á þingi, það er um álag á Viðvíkurkirkju. Nefndin hefur enn eigi vísað erindum þessum á bug, en virðist rjettara að geyma að gera út um þau, þangað til fjárlögin koma til meðferðar, því að hlutaðeigendum mun á minstu standa, hvort þeir fengju það, sem fram á er farið, fyrir nýár eða eftir það.