16.08.1913
Efri deild: 31. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 575 í B-deild Alþingistíðinda. (1940)

3. mál, fjáraukalög 1912 og 1913

Ráðherrann:

Jeg hef því miður ekki haft tækifæri til að hlýða á mál manna hjer í deildinni í dag. Jeg hef orðið að vera í Nd. og taka þátt í 2. umræðu um fjárlögin.

Jeg hef heyrt, að nokkrar mótbárur hafi komið fram gegn endurgreiðslu á kolatollinum til gufuskipafjelagsins „Sameinaða“, og að það hafi verið gefið í skyn, að það sje mínum ráðstöfunum eða stjórnarinnar að kenna, að svo er nú komið, að greiða verður þetta gjald , eða alþingi verður að höfða mál gegn fjelaginu. Jeg skal því gefa háttv. deild vitneskju um, hvernig öllu er háttað.

Þá er jeg kom til Hafnar í haust, fjekk jeg brjef frá stjórn hins Sameinaða gufuskipafjelags, þar sem var tilkynt, að fjelagið teldi sig leyst frá samningunnm frá 1909, er alþingi hefði samþykt lagafrumvarp um kolatoll, því þar með væru burtfallin þau grundvallarskilyrði fyrir samningnum, að annar samningsaðilinn gerði ekki hinum ókleyft að uppfylla hann fyrir um samið verð. Það hafði og tilkynt þetta innanríkisráðherra Dana, sem að vísu var aðalsamningsaðilinn, en Íslandsráðherra hafði skrifað undir samninginn með honum 1909 af Íslands hálfu. Hjer þurfti bráðra aðgerða. Engin tök voru á að fá önnur skip fyrir eins lítið verð og áður var kostur á, og því nauðsynlegt, að halda fast við samningana. Jeg leitaði álita lögkænna manna um þetta efni. Þeir töldu fjelagið hafa farið of langt, en hins vegar hjeldist Íslendingum, sem öðrum samningsaðilanum, ekki uppi að gera fjelaginu ferðirnar dýrari, en áður voru þær, að óbreyttu tillaginu. Árangurinn af málshöfðun mundi því verða sá, að fjelagið yrði að halda áfram samgöngum, en Íslendingar yrðu að endurgjalda fjelaginu þann halla, er það biði sökum kolatollsins, eða sleppa kröfunni til kolatolls frá skipum þess.

Jeg skal leyfa mjer að lesa hjer upp til skýringar katla úr brjefi til stjórnarinnar frá fjelaginu, er ritað var, þegar fjelagið loks, eftir talsverðar munnlegar ráðstefnur um málið, sendi ferðaáætlunar uppkast sitt fyrir árið 1913.

„Det er imidlertid fra vor Side en Selvfölge, at nærværende Indsendelse ikke præjudicerer vort for det ærede Kontor bekendte principielle Standpunkt nemlig at Overenskomstens Forudsætninger ensidigt er tilsidesatte ved den omhandlede Foranstaltning, der væsentlig fordyrer vor Virksomhed, saaledes at vi ikke kan paatage os at udföre Trafiken í Henhold til det vedlagte Udkast, uden at der forud opnaas Forstaælse om Stillingen í det hele“.

Það varð því úr, að innanríkisráðgjafinn, með samþykki ráðherra Íslands, gerði tilboð um að borga upphæð þá, er fjelagið yrði að greiða hjer í toll af þeim kolum, sem millilandaskip þess yrðu að taka hjer af landi og greiða toll af, með því skilyrði, að fjelagið skuldbindi sig til að endurborga hana, ef dómur fengist fyrir því, að þessi krafa fjelagsins væri ekki rjettmæt. Hinsvegar setti innanríkisráðherrann það upp við mig, að Ísland endurborgaði ríkissjóði þá upphæð, er hann í þessu skyni yrði að greiða. Upphæðin var því útborguð með reservation, og leiðir af sjálfu sjer, að ef vjer viljum reyna til að fá hana endurgoldna, þá verðum vjer að höfða mál. Jeg get ekki sjeð, að stjórn Íslands hafi gert sig seka í neinni yfirsjón í þessu máli ; þvert á móti, hjer var sú aðferð höfð, sem var sjálfsögð eftir málavöxtum. Háttv. þm. verða að gæta þess, að hjer er um fastbundinn samning að ræða. sem hvorugur aðili má rjúfa. Jeg fyrir mitt leyti er sannfærður um, að Island mundi hafa kostnað einn upp úr málshöfðun, því að í stöðulögunum er svo mælt fyrir, að ef nokkurt gjald verður lagt á póstferðirnar milli Íslands og Danmerkur, þá hafi Danastjórn rjett til að draga jafnmikið af árstillaginu til Íslands. Það getur því tæpast leikið neinn vafi á því, að Ísland yrði dæmt til að borga umrædda upphæð.

Mjer er sagt, að hjer í deildinni hafi komið fram mótmæli gegn tillögu stjórnarinnar um að bæta við pósthúsið, vegna þess að það mál sje of illa undirbúið. En þótt svo sje, að mörgum leiki hugur á, að fá nýtt pósthús annarsstaðar í bænum, þá er á það að lita, að hjer þarf hið bráðasta að bæta úr brýnni þörf. Og það er full ástæða til þess að taka þessa fjárveitingu inn á fjáraukalögin, því að öll líkindi eru til, að fjárlögin fyrir 1914–15 verði svo yfirhlaðin, að þar sje ekki á bætandi. Því að ef alt verður samþykt, sem fram á hefur verið farið, — sem jeg raunar hef góða von um að ekki verði til fulls — þá sýnist óhjákvæmilegt, að ávísað verði 500–600 þús. króna tekjuhalla á viðlagasjóðinn, sem allur stendur fastur í útlánum. Hinsvegar virðist áreiðanlegt, að þó nokkur tekjuafgangur verði eftir fjárhagstímabilið 1912–13, sem gengið gæti til pósthúsviðbótarinnar, svo að af þeim ástæðum þarf ekki að fella þennan lið úr fjáraukalögunum. Jeg vona því, að háttv. deild láti hann óhaggaðan.