21.08.1913
Efri deild: 35. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 630 í B-deild Alþingistíðinda. (1991)

3. mál, fjáraukalög 1912 og 1913

Eiríkur Briem:

Jeg hef gert brtill. við brtill. á þgskj. 485, frá háttv. 1. þm. Húnv. (Þ. J.). Þó að jeg viðurkenni, að hann hafi nokkuð til síns máls, þá þykir mjer hann fara helzt til langt. Gjaldið af hverjum póstbögli er nú 25 aurar, og hver böggull má ekki vera þyngri en 5 kílógrömm, og verður því gjaldið 5 aurar á hvert kg. Með hækkun þeirri, er jeg hef leyft mjer að bera fram, verður gjaldið 6 aurar á hvert kílógramm, og finst mjer ekki vera ástæða til þess að fara lengra, því þá er ekki lengur bersýnilegur vinningur að því, að flytja vefnaðarvörur í póstbögglum. Og svo er þess að gæta, að þó að bögglar megi vera 5 kilógrömm að þyngd, þá munu þeir vanalega ekki vera svo hnitmiðaðir niður, og mun því mega gera ráð fyrir, að þeir sjeu að jafnaði ljettari. En svo er þess að gæta, að brúkuðu frímerkin má selja aftur með nokkru verði. Jeg geri ráð fyrir, að hingað muni vera fluttir um 40000 bögglar; það hefur verið nálægt því, og ef gjaldið verður hækkað um 5 aura, þá nemur hækkunin 2000 krónum, og vinst þar nokkuð upp í hinar breytingarnar, er hafa verið gerðar á lögunum.

Mjer finst ekki ástæða til þess að fara lengra, hvað hækkunina snertir, en upp í 30 aura, en jeg sje enga ástæðu til að hika við það, einkum er litið er til þess, að gjaldandinn fær stimpluð frímerki fyrir upphæðinni, en þau eru, eins og menn vita, altaf talsverðs virði, svo hann fær nokkurn hluta gjaldsins endurgoldinn.