28.07.1913
Neðri deild: 20. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 461 í C-deild Alþingistíðinda. (352)

3. mál, fjáraukalög 1912 og 1913

Valtýr Guðmundsson:

Mér virðist háttv. fjárlaganefnd ekki hafa athugað frumvarp þetta að öllu leyti svo vel sem skyldi. Þar eru ýmsir póstar, sem eg hefði gjarna viljað að hún hefði minst á, og einkum sakna eg þó athugasemda um það, hversu ákaflega fjáraukalaga-upphæðin hefir farið vaxandi, ár frá ári upp á síðkastið. Það er ekki útlit fyrir annað, en að þau fari bráðum að jafnast við fjárl. sjálf. Það er beinlinis orðinn siður, að þegar stjórnin fær ekki fé til einhvers, þá er því bara dembt á fjáraukalög.; þá er alt samþykt.

Eg hefi nú litið yfir fjáraukalög frá síðustu 20 árum. Þau hafa alt af verið tvenn fyrir hvort fjárhagstímabil og það er fljótséð, að þau hafa mjög farið hækkandi. Sérstaklega hattar alveg fyrir þegar við fengum innlenda stjórn. Áður, í landshöfðingjatíðinni, var farið miklu varlegar í þær sakir.

Eg ætla nú að leyfa mér að gefa yfirlit yfir fjáraukal. frá þessum árum. Eg hefi tekið þau eina og þau voru lögð fyrir þingið, öll nema ein, því að eg fann ekki það bindi af Alþ.tíð. og varð því að fylgja sjálfum lögunum í Stjórnartíðindunum. Upphæð þess fjár, sem farið var fram á á fjáraukalögum, var árin:

1892–3 kr. 5.331

— — 8.064 samt. 13.395

1894–5 — 3.851

— — 2.100 — 5.951

1896–7 kr. 18.051

— — 16.132 samt. 34.183

1898–9 — 32.283

— — 17.721 — 50.004

1900–01 – 24.300

— — 18.906 — 43.206

1902— 3 – 46.130

— — 25.044

— — 38.225 — 109.399

1904–5 — 65.683

— — 12.050 — 77.733

1906–7 — 143.062

— — 278.655 —421.717

1908–9 — 133.936

— — 91.077 — 225.013

1910–11 — 112.951

— — 120.664 — 233.615

1912–13 — 135.891

— —- ?

Hver kann um það að segja, hve há verða síðari fjáraukalögin fyrir þetta fjárhagstímabil? En eftir því sem á undan er farið, megum við eiga von á góflunni! Þetta álít eg að sé svo athugavert mál, að full ástæða hafi verið fyrir nefndina að taka það til rækilegrar íhugunar, hvort ekki mætti komast hjá því, að veita svona mikið fé utan fjárlaga. Að eins á einum stað hefir verið gerð athugasemd, enda hafði þá skörin farið að færast upp í bekkinn, þegar Hvanneyrarskólinn byggir helmingi dýrara hús en ráð var fyrir gert, án þess að talað væri við nokkurn mann, eða gerð nokkur grein fyrir þessu. Þetta dæmi sýnir einmitt, hvernig á er litið út í frá. Það er álitið óhætt að gera alt mögulegt í leyfisleysi, og því að eins eru akólar og aðrir svona frekir, að stjórnarráðið hefir verið of vægt. Viðgerðir geta verið dýrar, en varla svo, að ekki sé hægt að sjá þær betur fyrir en þetta. Annað er, þegar aðsóknin er svo mikil að skólum, að skifta þarf bekkjum og auka kenslukrafta. Við því verður eigi séð.

Þá ætla eg líka að líta á nokkra einstaka liði. T. d. annan af inum nýju liðum í 6. gr. Þar eru tveir styrkir, og hefi eg ekkert að athuga við inn fyrri, styrkinn til Olympíufaranna, og eg hefi eigi heldur neitt á móti næsta styrkinum — 1000 kr. handa konu til að fara til Búda-Pest — í “principinu„. Það getur verið, að stjórnin verði að grípa til fjáraukalaga í svona tilfelli, þar sem hún er svona herfilega stödd, að hafa ekkert fé til frjálsra umráða milli þinga, sem eg einmitt vildi að hún hefði. En mér þykir þessi styrkur, sem eg var að tala um, helzt til ríflegur, sérstaklega í samanburði við hinn styrkinn, sem eg nefndi. Hann var til 7 eða 8 manna, sem þurftu að vera töluvert lengi í ferðinni, og fengu þeir þó ekki nema 2.500 kr., en hér eru einum veittar 1000 kr. (Jón Ólafsson: En það þurfti túlk!). Jú, en við það verður ekki miðað. Í bæði skiftin er farið fyrst til Khafnar, og ferðin er ekkert lengri þaðan til BúdaPest, en til Stokkhólms.

Eg verð enn að geta þess í sambandi við þetta, að það er ekki farið jafnvarlega nú og áður var. Eg man það, þegar farið var fram á fjárveitingu hérna á árunum í nokkuð svipuðu skyni, og var þó nokkuð meira máli að gegna. Það Var þegar til stóð að banna flutning á lifandi sauðfé héðan til Englands, og það var stórt fjárhagsatriði fyrir Ísland. Þá var stungið upp á því, að senda mann, Schierbeck, sem hér var einu sinni landlæknir, til Englands, til þess að sannfæra Bretann um, að hér væri engin hættuleg sýki, og fá hann ofan af þessu. En þá þorði ekki Nellemann gamli, sem ekki lét sér þó ævinlega alt fyrir brjósti brenna, að veita féð. Svona var hann strangur. Og endirinn varð sá, að Vídalín og Zöllner urðu að leggja fram peningana úr eigin vasa og eiga á hættu að fá þá ekki endurgoldna, ef Alþingi neitaði að veita þá.

Í 8. gr. frumvarpsins fer stjórnin fram á styrk eða eftirlaun til ekkjufrúar Valgerðar Jónsdóttur frá Múla, 360 kr. á ári. Stjórninni finst þetta sjálfsagt og nefndin hefir ekkert við það að athuga. Þetta; er sjálfsagt sæmdarkona og ekkja eftir sæmdarmann. En þó er þetta talsvert athugavert, ekki svo mjög fyrir það að upphæðin sé í sjálfu sér mikil, heldur er það “principið„, sem er varhugavert. Þetta er þingmanns ekkja. Á þá að innleiða þá reglu, að allar þingmanna ekkjur skuli hafa eftirlaun? Og þegar það fer saman, að embættismenn eru þingmenn, á þá að bæta Við eftirlaun ekkna þeirra?

Það er tekið fram í athugasemdinni við greinina, að styrkurinn virðist ekki geta Verið lægri. Eiga þá þingmanna ekkjur að hafa hærri eftirlaun en t. d. prestsekkjur? Þær hafa alment 100 kr., eða svo var það að minsta kosti. Læknisekkjur hafa, eftir skránni sem prentuð er aftan við fjárlagafrumvarpið, 187.50 kr., ein jafnvel ekki nema 81.25 kr. og ein sýslumannsekkjan 100 kr. Mér er spurn, Við hvað er miðað þegar sagt er, að styrkurinn megi ekki vera lægri?

Eitt er enn þessu viðvíkjandi, sem nefndin hefir ekki athugað. Það er alls ekki upplýst, hvort viðkomandi ekkja hefir sótt um nokkurn styrk. Eg hefi heyrt, að hún hafi alls ekki sótt. Og það hefi eg heyrt fullyrt, að hún hafi 1500 kr. frá Zöllner, svo að þörfin virðist ekki hafa verið sérstaklega mikil, að minsta kosti ekki svo mikil, að hún hafi þurft hærri eftirlaun en prestsekkjur og aðrar embættismannaekkjur. Eins og eg tók fram áðan, er það aðallega “principið„, sem eg tel varhugavert, og að svo er tekið til orða, að þetta sé “sjálfsagt„.

Þá er enn ein grein, 9. gr. frv. Þar er farið fram á, að greiddur sé ferðaostnaður nokkurra þingmanna á fund í Reykjavík í Desember 1912. Við þetta gerir nefndin engar aðrar athugasemdir en þær, að hún leggur til eftir atvikum að greinin verði samþykt með 100 kr. hækkun, og að tekið sé fram, að fæðispeningar þingmanna séu fólgnir í kostnaðarupphæðinni.

Þessi fjárveiting er stórkostlega athugaverð, ekki fyrir það, að hún sé svo há, heldur frá “principelu„ sjónarmiði. Á þenna fund voru boðaðir margir þingmenn utan af landi, en gengið fram hjá öðrum, sem engan ferðakostnað hefði þurft að greiða, af því að þeir áttu heima hér í Reykjavík. Og fram hjú þeim var gengið fyrir þá sök, að þeir vildu ekki sinna þeim málaleitunum, er til meðferðar voru á fundinum. Um það var ekkert hugsað, að í jafnþýðingarmiklu máli var það afar-mikils vert að heyra “oppositionina„ — andþófsskoðanirnar. En hér er það sérstaklega athugavert, að fé er veitt til þess að kalla menn saman á pólitískan flokksfund. Það var stjórnarflokkurinn, sem hélt fundinn, og þeim er fundinn sátu eru greiddir ferðapeningar og dagpeningar. Eg hefi heyrt, að einum fundarmanninum hafi líkað þetta svo illa, að hann hafi ekki þegið féð, en sætt sig loksins við, að taka við því nú, og það séu þegar 100 kr., sem nefndin leggur til að bætt sé Við. Eg veit ekki fullar sönnur á þessu atriði, en háttv. framsögumaður upplýsir það væntanlega. En þetta er ekki öll upphæðin. Síminn var óspart notaður, en það kann að vera, að hann hafi fengist fyrir ekki neitt. En það er líka minst vert um upphæðina. Það er “principið„ — fordæmið, sem gefið er, sem er athugavert.

Ef þetta verður samþykt, er því slegið föstu, og eg slæ því hér með föstu, að hver stjórn hefir leyfi til að vaða í landssjóðinn og ausa úr honum peningum handa flokksmönnum sínum. (Lárus H. Bjarnason: Það er gróflega þægilegt). Það kann að vera. En hvernig ætli færi í Englandi, þar sem engin skrifuð stjórnarskrárlög eru, en alt fólgið í fordæmum, ef slíkt kæmi fyrir þar? Fjárlaganefndin gerir enga athugasemd við þetta. (Lárus H. Bjarnason: Eftir atvikum). Já, eftir atvikum, en út úr því er ekkert hægt að fá. Þetta er svo varhugavert, að það er alveg óskiljanlegt, að nefndin skuli ekki hafa tekið eftir því. Það kann að hafa verið erfitt fyrir hana að gera athugasemdir við þetta, þar sem í henni sitja sumir þeir menn, er á fundinum voru, og tekið hafa á móti peningunum fyrir það. Þeir hafa væntanlega ekki greitt atkvæði. Hinir hafa svo hikað við að koma með aðfinningar. Ef svo færi að flokksráðherrar héldu áfram sama stryki, gengju í landasjóðinn eftir fé handa þeim mönnum, er þeirra flokk fylla, þá væri sannarleg siðspilling — “corruption„ komin í stjórnmálin.

Eg er sammála Konungsskuggsjá, að það er versta óáranin þegar óáran kemur í mannfólkið. Mér er það óskiljanlegt, að fjárlaganefndin skuli hafa hlaupið slíkum hérafótum yfir frumvarpið. Það hefði strax verið munur, ef hún hefði sagt um þenna lið, að það yrði að vera svo í þetta eina skifti, en slíkt mætti ekki koma fyrir oftar. Eg fyrir mitt leyti get ekki greitt atkvæði með honum eins og hann er.