28.07.1913
Neðri deild: 20. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 473 í C-deild Alþingistíðinda. (357)

3. mál, fjáraukalög 1912 og 1913

Kristinn Daníelsson:

Eg stend upp að eins vegna breyt.-till. á þgskj. 125. Hefði eg máske getað sparað mér ómakið, því eg er svo heppinn, að framsögumaður nefndarinnar staðfestir orð mín, er eg ber fram, að það er með samþykki háttv. fjárlaganefndar, að till. mín er fram komin. Samt álít eg rétt að minna á það, sem eg hefi áður skýrt frá, að þannig löguðu eftirliti hefir verið haldið uppi í Garðssjó í sumar með ágætum árangri. En mótorbát til eftirlitsins var ekki hægt að fá fyrir minna en 4 þús. kr., þar af þurfti að fá helminginn úr landssjóði, en þó að stjórnin hafi ekki séð fært að veita meira en 1500 kr., var þó ráðist í fyrirtækið í trausti til þess, að Alþingi veitti síðar það sem á vantaði, og þess vegna er beiðnin og breyt.-till. þessi fram komin.

Eg býst við að háttv. þingm. sé málið svo kunnugt, að óþarfi sé að hafa um það fleiri orð.